Sænska kvikmyndin Play eftir Ruben Östlund og framleidd af Erik Hemmendorff (Plattform Produktion) er besta norræna kvikmynd þessa árs, en myndin fær norrænu kvikmyndaverðlaunin í ár. Verðlaunin verða afhent á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki þann 31. október.
Dómnefnd kvikmyndaverðlaunanna, en í henni eru kvikmyndasérfræðingar frá norrænu ríkjunum fimm, rökstyðja valið á bestu kvikmynd ársins á eftirfarandi hátt:
„Ruben Östlund leikstjóri sýnir enn einu sinni að hann er einn frumlegasti leiksjtóri samtímans á norðurlöndum. Með því að halda til streitu listrænni tilraun sinni – að kryfja og greina mannlega hegðun, gefur hann umhugsunarverða innsýn í félagsleg hlutverk og hlutverkaleik. Stílfærð myndvinnslan, hvíldarlaus taktur frásagnarinnar og stórkostlegur leikur áhugaleikara gera Play að verki sem beinlínis veldur líkamlegum óþægindum og hvetur áhorfandann til umhugsunnar um miklvæg málefni í vestrænu þjóðfélagi“.
Play var heimsfrumsýnd á Directors Fortnight í Cannes árið 2011 og hlaut „Coup de coeur“ verðlaunin. Myndin hefur síðan hlotið fjölmörg alþjóðleg verðlaun. PLAY var frumsýnd í sænskum kvikmyndahúsum í nóvember 2011 og hefur síðan verið sýnd m.a. í Danmörku, Noregi og Finnlandi.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt árlega fyrir kvikmynd sem þykir uppfylla ströngustu kröfur um listræn gæði og byggja á norrænni menningu.
Grjóthörð samkeppni
Í tilefni af tilkynningu um verðlaunahafa ársins segja Rubern Östlund og Erik Hemmendorff:
„Það er bæði frábært og ótrúlega mikil viðurkenning að hljóta kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Jafnvel þó að við höfum ferðast um fjögur af fimm norrænu ríkjunum með PLAY árið 2012 og upplifað þau frábæru viðbrögð og móttökur sem myndin hefur fengið, höfðum við aldrei þorað að vonast til þess að við fengjum verðlaunin í ár, því samkeppnin hefur verið grjóthörð.“