Síðastliðin ár hafa menn vonast eftir framhaldi á gamanmyndinni Zoolander frá árinu 2001. Ben Stiller leikstýrði myndinni, skrifaði handritið og lék titilhlutverkið, karlfyrirsætuna Zoolander.
Nú hefur verið staðfest að framhaldsmynd er í bígerð og hefur spænska leikkonan Penelope Cruz verið fengin til þess að leika í myndinni. Ekki er vitað með vissu hvaða hlutverk Cruz mun gegna. Þessu er greint frá á vef Huffington Post.
Leikarinn Will Ferrell staðfesti að hann myndi snúa aftur sem tískukrimminn Jacobim Mugatu. Í fyrri myndinni reyndi Mugatu að heilaþvo hjartagóðu ofurfyrirsætuna Derek Zoolander og fá hann til að myrða forsætisráðherra Malasíu. Owen Wilson hefur verið orðaður við hlutverk sitt að nýju sem ofurfyrirsætan Hansel, sem var óvinur Zoolander en að lokum breyttist samband þeirra í mikla vináttu.