Enn einni stórmyndinni sem komin var á ystu nöf með að hefja tökur hefur nú verið frestað. Paradise Lost er nýjasta fórnarlamb fjármagnskreppunnar, en myndin átti að hefja tökur strax eftir jól. Leikstjóri verður Alex Proyas (The Crow) og Hangover-stjarnan Bradley Cooper á að leika sjálfan Lúsifer, í epískri stórmynd (lauslega) byggðri á samnefndum ljóðabálki John Milton frá 17. öld. Ljóðið byggir á biblíusögunni klassísku um syndafallið, er Adam og Eva gerðust brottræk úr Eden, en segir söguna aðallega frá sjónarhorni freistarans Lúsifers sjálfs.
Myndin átti að kosta yfir 120 milljónir dollara, og hana átti að gera í Motion-Capture stíl (eins og Avatar) enda stórmynd á biblíuskala. Svo virðist sem framleiðendurnir hafi samt fengið efasemdir um arðbærni myndarinnar og hafa nú frestað tökum til þess að freista þess að ná kostnaði myndarinnar niður. Þessu fylgir þó fullvissun um að ekki sé verið að hætta við gerð myndarinnar, og vonandi muni tökur fara fram í vor eða sumar. Það er þó aldrei að vita, The Lone Ranger, lenti í svipuðum vanda en komst aftur af stað, en það sama er ekki hægt að segja um At the Mountains of Madness sem Guillermo del Toro og Tom Cruise voru langt komnir með, eða The Dark Tower, sem Ron Howard ætlaði að leikstýra.
Ásamt Cooper voru þau Benjamin Walker, Djimon Hounsou, Diego Boneta og Camilla Belle tilbúin í tökur eftir jól, en ekki er víst að þau geti öll fylgt verkefninu með þessari frestun. Ég verð að segja að sumu leiti finnst manni samt jákvæð þessi afleiðing efnahagskreppunnar, að kvikmyndafyrirtæki reyni að gera eitthvað ódýrara frekar en dýrara þegar þess þarf. T.d. finnst mér enn óskiljanlegt af hverju vestri eins og The Lone Ranger þurfti að kosta yfir 200 milljónir bandaríkjadala. Hin afleiðingin er þó öllu þungbærari er hreinlega hætt er við að gera frumlegar og lofandi myndir vegna ótta við að markaðurinn taki þeim ekki vel. Það verður forvitnilegt að sjá hvort myndin kemst ekki aftur í gang, og hvernig í ósköpum Proyas sér fall Lúsifers og freistingu mannsins fyrir sér í Hollywood-vænni stórmynd.