Jack Paglen, handritshöfundur Johnny Depp myndarinnar Transcendence, sem væntanleg er í bíó 25. apríl á næsta ári, á nú í viðræðum um að skrifa handrit að framhaldi Ridley Scott myndarinnar Prometheus, en eins og menn muna þá var Prometheus 1tekin að hluta til hér á landi.
Prometheus 1 var skrifuð af Jon Spaihts og Damon Lindelof, en hún var sú mynd sem menn biðu eftir með hvað mestri eftirvæntingu árið 2012. Myndin fjallaði um hóp vísindamanna sem leituðu að svarinu við gátunni um upphaf lífsins á jörðinni, og var frumsýnd í júní á síðasta ári. Myndin varð á endanum 15. aðsóknarmesta mynd ársins 2012.
Myndin hefur þénað 403,4 milljónir dala um allan heim.
Prometheus er að hluta til forsagan að mynd Ridley Scott, Alien, frá árinu 1979, og er með Noomi Rapace og Michael Fassbender í aðalhlutverkum. Þau tvö eru sögð líkleg til að snúa aftur í næstu mynd. Scott mun framleiða myndina.
Vísindaskáldsagan Transcendence, sem gerð er eftir handriti Paglen eins og áður sagði, verður frumraun kvikmyndatökumannsins Wally Pfister í leikstjórastól, en Pfister hefur verið kvikmyndatökumaður Christopher Nolan um árabil.