Nýjasta kvikmynd nördaprinsins Guillermo Del Toro, Pacific Rim, er vægast sagt stórlega metnaðarfult verkefni. Myndin er fokdýr sjálfstæður vísindaskáldskapur með núll tengingar við annað efni eða vörur (sem við vitum af, allavega) og inniheldur magnaðan leikhóp þó ekkert nafn þar er sérstaklega eftirminnilegt fyrir almenning. En ég hef svo sannarlega mikla trú á verkefninu enda frábært fólk að vinna við myndina, fyrir framan og á bak við vélarnar.
Myndin fjallar um innrás geimvera, þekktar í myndinni sem Kaiju, frá dýpstu iðrum hafsins og andstöðu okkar gegn þeim. Besta vörnin okkar reynast vera tröllvaxin vélmenni, nefnd Jaegers, sem tveir einstaklingar þurfa að stýra. Myndin gerist m.a. í Japan en eins og titill myndarinnar gefur til kynna þá er landið ásamt öllum kyrrahafsjaðrinum mikilvægur sögupunktur í myndinni.
Hér fyrir neðan má sjá plakatið sem var afhjúpað í tengingu við hinn væntanlegu Comic Con kynningu myndarinnar.
Myndin sækir mikinn innblástur í japanskar skrímslamyndir (einnig þekktar sem Kaiju-myndir) á borð við Godzilla, Rodan, og Daimajin. Del Toro hefur lýst Pacific Rim sem ‘gullfallegu ljóði tileinkað risavöxnum skrímslum’.
Einnig er frábært að fá leikkonu af asískum uppruna leika eitt af tveim aðalhlutverkum í svona stórri kvikmynd, þá sérstaklega þegar myndin felur engar af tilvísunum sínum í japanska menningu. Það þarf miklar hreðjar til að framleiða svona kvikmynd í dag.
Einnig er hér listi yfir góðar ástæður til að vera spennt yfir myndinni:
-Idris Elba fer með hlutverk sem Tom Cruise var upphaflega tengdur við.
-Tónlistin er samin af Ramin Djawadi (Game of Thrones og Iron Man)
-Margir óskarsverðlaunahafar sjá um tæknibrellurnar sem hafa m.a. áður unnið við myndir á borð við Iron Man, Real Steel, Pirates of the Caribbean, ásamt því að Industrial Light & Magic munu sjá um vinnsluna.
-Kostnaðurinn er sagður ná hátt upp í 200 milljónir bandaríkjadollara.
-Þetta er kvikmyndin sem Del Toro tók að sér eftir að At The Mountains of Madness var lögð í salt, þannig hann vill líklegast sína hvað í sér býr.
-Myndin gæti hugsanlega startað áhuga á að leita til Japan hvað varðar áhugaverð efnistök, þá líklegast anime þátta enda hafa risavaxin vélmenni og Japan hafa oft verið tengd við þann sívinsæla miðil.
Að mínu mati er þetta mest spennandi kvikmynd næsta árs. Ekki bara af því hún er samsett af snjöllum handritshöfundi, mögnuðum leikstjóra, og svakalegum leikhóp, heldur minnir hún mig á eina uppáhalds þátta-/kvikmyndaseríuna mína, Neon Genesis Evangelion. En þetta hljómar eins nálægt þeirri seríu og við fáum á næstunni.
Hvað finnst ykkur kæru lesendur, kitlar þessi kvikmynd áhugan ykkar?