Stuttu eftir að nýtt plakat fyrir Brave næstu mynd Pixar veldisins var birt var ný stikla sett á netið. Þó að myndskeiðið sé auglýst sem slík er í raun bara um að ræða tveggja og hálfrar mínútu atriði úr myndinni, sem sýnir aðalsöguhetjuna láta til sín taka í bogfimikeppni.
Eins og áður sagði, fjallar myndin um óþólinmóðu prinsessuna Meridu, sem er dóttir Fergusar konungs og Elinor drottningar. Hún er ekki allskostar hrifin af venjum samfélags síns og setur allt í uppnám er hún neitar að taka þátt í aldagamalli hefð og ákveður að finna lífi sínu eigin leið. Brave má kalla fyrsta ævintýrið í hefðbundnum skilningi frá Pixar, en myndin gerist á 10. öld í Skotlandi, og er sögð verða aðeins fullorðinslegri í tón en fyrri myndir fyrirtækisins. Þá er þetta fyrsta mynd Pixar þar sem aðalpersónan verður kvenkyns.
Leikstjórn er í höndum þeirra Mark Andrews og Brenda Chapman, og meðal leikara eru skemmtilega skosk nöfn eins og Kelly MacDonald, Emma Thompson, Billy Connolly, Julie Walters, Kevin McKidd, Craig Ferguson og Robbie Coltrane.