Óþolandi að leika Bean

„Velgengni Mr. Bean hefur aldrei komið mér á óvart. Það er einfaldlega stórfyndið að fylgjast með fullorðnum einstaklingi hegða sér eins og smákrakki án þess að hann gerir sig grein fyrir því,“ segir breski leikarinn Rowan Atkinson um frægustu persónu sína – sem hann þolir ekki að leika.

Atkinson tjáði sig meðal annars um persónuna í ítarlegu viðtali við Radio Times þar sem hann sagði það vera erfitt og þreytandi ferli að túlka Bean. Hann mun eingöngu halda sig við að talsetja persónuna í teiknimyndum en hlakkar til að geta lagt karakterinn á hilluna og þá endanlega.

„Það er mun auðveldara að talsetja persónuna. Mér finnst þetta ekki gaman og ábyrgðin að túlka Bean er ekki ánægjuleg. Þetta er streituvaldandi, þreytandi og ég get ekki beðið eftir að ljúka þessu öllu af,“ sagði Atkinson í viðtalinu.

Atkinson kom fyrst fram sem Hr. Bean árið 1990 og lék hann í sjónvarpsþáttum í fimm ár. Þá hefur hann skotið upp kollinum í gestahlutverkum og auglýsingum í gegnum árin og lék einnig í tveimur kvikmyndum um klaufabárðinn. Sú fyrsta (Bean: The Ultimate Disaster Movie) kom út árið 1997 og seinni (Mr. Bean’s Holiday) um áratug síðar.

Leikarinn hefur einnig talsett fígúruna í fimm teiknuðum þáttaröðum, samanlagt 130 þáttum talsins. TIl stendur að framleiða þriðju bíómyndina um Bean en verður hún að öllu leyti teiknuð.

Atkinson tekur að vísu fram að honum þykir almennt leiðinlegt að vera staddur á tökustað. Hann nefnir þó gamanþættina Blackadder sem undantekningu og útilokar ekki að persónan Edmund Blackadder gæti litið dagsins ljóst á ný.