Kvikmyndaklúbburinn Svartir sunnudagar í Bíó Paradís munu enda Forboðinn febrúar á hinni alræmdu mynd John Waters, Pink Flamingos frá árinu 1972, en á Forboðnum febrúar hafa Svartir sunnudagar einbeitt sér að alræmdum og bönnuðum myndum, sem vakið hafa hneykslan um víða veröld.
Sjáðu stikluna úr Pink Flamingos hér fyrir neðan:
Myndin segir frá glæpakvendinu Divine sem orðin er fræg í fjölmiðlum sem “Ógeðslegasta manneskja í heiminum”. Þennan titil hefur henni tekist að tryggja sér með ýmsum leiðum, meðal annars því að borða hundaskít. Friðurinn er þó úti þegar hin alræmdu hjón, Connie og Raymond gera tilraun til að hrifsa af henni titilinn. Þetta þýðir stríð.
Pink Flamingos olli mikilli hneykslan þegar hún varð frumsýnd en öðlaðist fljótlega költ status og hefur verið sýnd reglulega í bíóhúsum heimsins í rúm fjörtíu ár. Myndin var bönnuð í Ástralíu og sjaldnast hefur hún fengist sýnd óklippt. Svartir sunnudagar bjóða þó upp á Pink Flamingos eins og þegar hún var frumsýnd.
Svartir sunnudagar láta sérhanna plakat fyrir allar myndir sem sýndar eru í klúbbnum. Plakatið fyrir Pink Flamingos gerði myndlistarmaðurinn Jóhann Ludwig Torfason og má sjá það hér fyrir neðan:
Leikstjóri: John Waters
Aðalhlutverk: Divine, David Lochary, Mary Vivian Pearce
Sýnd: 24. febrúar 2013 kl. 20 í Bíó Paradís.