Ofurkona fær kærasta

Von er á fyrstu kven-ofurhetjumyndinni innan tíðar, þ.e. fyrstu mynd þar sem kvenhetja er aðalmanneskja, síðan Daredevil hliðarmyndin Electra með Jennifer Garner í aðalhlutverkinu var frumsýnd árið 2005. Um er að ræða myndina Wonder Woman með Gal Gadot í titilhlutverkinu.

pine

Hingað til hefur lítið heyrst af frekari ráðningum í myndina en nú hefur því verið ljóstrað upp að Star Trek leikarinn Chris Pine muni leika kærasta hennar í myndinni.

Sagt er að þar sé um að ræða hlutverk Steve Trevor, en Pine ku hafa skrifað undir samning um að leika í nokkrum Wonder Woman myndum, en þeim möguleika er haldið opnum að gerðar verði framhaldsmyndir, en það ræðst auðvitað af viðtökum við fyrstu myndinni.

Patty Jenkins mun leikstýra myndinni, sem væntanleg er í bíó 2017. Þeir sem vilja fá forskot á sæluna, geta séð Gal Gadot sem Wonder Woman í Batman vs Superman: The Dawn of Justice sem kemur í bíó 25. mars árið 2016. Ennfremur mun Wonder Woman láta ljós sitt skína í Justice League ofurhetjumynd sem kemur í bíó 17. nóvember 2017.