Konur eru sífellt atkvæðameiri í ofurhetjugeiranum, í myndum eins og Wonder Woman og Captain Marvel. Nú er von á nýrri kvenhetju, þeirri fyrstu í svokallaðri plús-stærð, sem er með aðeins mýkri línur en hinar hefðbundnu hetjur, eins og það er orðað í frétt Deadline.com.
Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures vinnur nú að framleiðslu á leikinni kvikmynd um ofurhetjuna Faith, sem ættuð er úr teiknimyndaheimi Valiant Comics. Nú þegar hefur handritsfhöfundur sjónvarpsþáttanna vinsælu American Gods, Maria Melni, verið ráðin til að skrifa handritið.
Faith, sem heitir fullu nafni Faith Herbert, er lífleg persóna sem ann teiknimyndum og vísindaskáldsögum. Hún reynist einnig búa yfir fjar-áhrifa kröftum, þ.e. hún getur hreyft hluti án þess að snerta þá osfrv.
Árið 2015 samdi Sony við Valiant Entertainment, en nú þegar hefur kvikmyndin Bloodshot, í leikstjórn Dave Wilson, komið út úr þeim samningi, en vonast er til að þar verði hægt að framleiða fleiri en eina mynd, með aðalleikaranum Vin Diesel í fararbroddi.
Faith kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1992, sem hluti af Harbinger ofurhetjuteyminu. Hún kann að fljúga og hreyfa til hluti, eins og fyrr sagði.