Ný stikla er komin fyrir íslensku myndina Falskur fugl, sem gerð er eftir samnefndri sögu Mikaels Torfasonar, og leikstýrt af Þór Ómari Jónssyni.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Eins og heyrist í stiklunni, þá er aðalsöguhetjan að lýsa þar ofbeldisfullum draumi og á meðan spilast ýmsar senur úr myndinni þar sem kynlíf, ofbeldi og eiturlyf koma við sögu meðal annars.
Sagan fjallar um Arnald Gunnlaugsson, 16 ára ólíkindatól sem býr hjá vel stæðum foreldrum sínum. Hann er bæði myndarlegur og bráðgreindur en tekst þó ekki að rata á sína óskaslóð.
Á youtube.com síðu myndarinnar segir að Falskur fugl sé nöpur og hrottaleg lýsing á heimi sem allir þekkja en fæstir þora að horfast í augu við. „Stjórnlaust lendum við í árekstri við óskabarn þjóðarinnar sem um leið er hennar versta martröð.“
Með helstu hlutverk í myndinni fara Styr Júlíusson, Rakel Björk Björnsdóttir, Davið Guðbrandsson, Alexía Björg Jóhannesdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Þorsteinn Bachman, Damon Younger og Arndís Hrönn Egilsdóttir.
Framleiðandi er New Work Ehf. Þórmóður Jónsson og Bergsveinn Jónsson.
Handritið skrifar Jón Atli Jónasson og leikstjóri er Þór Ómar Jónsson.
Það er Sena sem sýnir myndina sem verður frumsýnd fljótlega eftir áramót.