Nýtt í bíó: Stuber

Gamanmyndin Stuber, með þeim Dave Bautista og Kumail Nanjiani í aðalhlutverkum, verður frumsýnd fimmtudaginn 11. júlí í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíó Egilshöll og Kringlu og Borgarbíói Akureyri.

Í myndinni ræður rannsóknarlögreglumaður Uber bílstjórann Stu til að aka með sér eina ævintýralega nótt. Löggan er á hælunum á blóðþyrstum hryðjuverkamönnum sem haldnir eru kvalalosta.

Engin vettlingatök!

Stu er sérlega kurteis, hæglátur og vandvirkur maður sem er einkar umhugað um að halda í fimm stjörnu-einkunnina sem hann hefur aflað sér sem Uber-leigubílstjóri.

Þegar lögreglumaðurinn Vic tekur bíl hans á leigu ógnar hann um leið öllu því sem Stu er kærast og setur líf hans algjörlega úr skorðum. Vic dregur Stu út í eltingarleik við stórhættulegan morðingja að nafni Teijo. Ef það var eitthvað sem Stu vantaði ekki inn í líf sitt þá er það einmitt brjálaður morðingi, enda ógnar Teijo ekki bara heilsu hans og lífi heldur einnig vel bónaða bílnum og orðsporinu hjá Uber …

Leikstjóri: Tripper Clancy
Leikarar: Dave Bautista, Kumail Nanjiani, Natalie Morales, Karen Gillian

Ath: Myndin er bönnuð börnum yngri en 16 ára.

Áhugaverðir punktar til gamans.

-Leikstjóri myndarinnar er Michael Dowse sem gerði m.a. Fubarmyndirnar tvær (2002 og 2010), It’s All Gone Pete Tong (2004), Take Me Home Tonight (2011), Goon (2011) og The F Word (2013), en allar eiga þær það sameiginlegt að hafa hlotið mjög góða dóma.

-Karen Gillan leikur annað aðalkvenhlutverkið í myndinni, lögreglufélaga Vics, en Karen og Dave Bautista ættu að þekkjast vel eftir að hafa leikið saman í Guardians of the Galaxy-myndunum og Avengers-myndunum Infinity War og Endgame þar sem Dave lék Drax og Karen lék örlagavaldinn Nebulu, dóttur Thanosar.

Sjáðu plakat og stiklu hér fyrir neðan: