Sambíóin frumsýna kvikmyndina Black Mass föstudaginn 2.október nk.
Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að myndin hafi fengið mikið lof gagnrýnenda enda sýni Johnny Depp hvers hann er megnugur í hlutverki sínu sem einn alræmdasti glæpamaður i sögu Bandaríkjanna.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Í myndinni er sögð sönn saga James „Whitey” Bulger sem gerðist uppljóstrari bandarísku alríkislögreglunnar til að losna við samkeppni mafíunnar en reyndist síðan sjálfur stórglæpamaður og var með mörg morð á samviskunni.
„Black Mass eftir leikstjórann Scott Cooper er ein umtalaðasta mynd ársins en í henni fer Johnny Depp á algjörum kostum í hlutverki stórglæpamannsins James Josephs „Whitey” Bulger, Jr. sem talinn er hafa a.m.k. 19 mannslíf á samviskunni. Whitey, sem var á árum áður uppljóstrari alríkislögreglunnar og naut því ákveðinnar friðhelgi yfirvalda lengi vel, slapp undan handtöku í desember 1994 og tókst síðan að fara huldu höfði í sextán og hálft ár. Af þeim var hann í tólf ár í öðru sæti, á eftir hryðjuverkaleiðtoganum Osama Bin Laden, á lista bandarísku alríkislögreglunnar yfir eftirsóttustu glæpamennina og voru tvær milljónir dollara settar til höfuðs honum. Bulger var síðan handsamaður í júní 2011 eftir ábendingu Önnu Björnsdóttur og afplánar nú tvöfaldan lífstíðardóm í fangelsi…
Aðalhlutverk: Johnny Depp, Benedict Cumberbatch, Dakota Johnson, Joel Edgerton, Kevin Bacon og Peter Sarsgaard
Leikstjórn: Scott Cooper
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri.
Aldurstakmark: Bönnuð innan 16 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
– Black Mass var frumsýnd í bandarískum kvikmyndahúsum 18. September og hefur fengið frábæra dóma virtustu gagnrýnenda og mjög góðar viðtökur almennings, en hún er þegar þetta er skrifað með 8,1 í einkunn á kvikmyndavefnum Imdb.com frá tæplega sjö þúsund notendum. Telja flestir fullvíst að Johnny Depp muni hljóta tilnefningar til allra helstu leikaraverðlauna ársins, þ. á m. til Óskarsverðlauna fyrir besta leik í aðalhlutverki karla.
– Myndin er byggð á metsölubókinni Black Mass: The True Story of an Unholy Alliance Between the FBI and the Irish Mob sem blaðamennirnir Dick Lehr og Gerard O’Neill skrifuðu um þennan alræmda glæpahund og mál hans allt.
– Johnny Depp reyndi margoft að fá James Bulger til að hitta sig fyrir gerð myndarinnar en Bulger hafnaði því jafnóðum. Þess í stað var leitað ráðgjafar fólks sem þekkti Bulger vel persónulega og vann með honum og staðfestu allir einróma að Depp væri að túlka hann á fullkominn hátt.
– Sjálfur hefur Johnny Depp sagt að hlutverk James Bulger sé það áhugaverðasta sem hann hefur tekið að sér. Hann braut svo sína eigin áralöngu reglu um að horfa ekki á myndir með sjálfum sér þegar hann mætti á sýningu myndarinnar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum 4. september síðastliðinn.
– James Bulger er frá Boston og til að ná hinum eina sanna Boston-hreim sagðist Johnny Depp hafa leitað til Joe Perry, gítarleikara Aerosmith.
– Eins og kunnugt er handtók lögreglan Bulger í júní 2011 eftir að nágrannakona hans, Anna Björnsdóttir, bar kennsl á hann við heimili sitt í Santa Monica í Kaliforníu og lét lögregluna vita. Það er Berglind Jónsdóttir sem leikur Önnu í myndinni.
– James Bulger var í júní 2012 ákærður fyrir 32 glæpi, þ. á m. nítján morð, og var í ágúst 2013 fundinn sekur um 31 glæp, þ. á m. öll morðin. Hann var dæmdur í tvöfalt lífstíðarfangelsi fyrir morðin auk fimm ára fyrir aðra glæpi og situr nú í Coleman II-öryggisfangelsinu í Flórída. Hann er 86 ára í dag. Þess má geta að Bulger var grunaður um aðild að fleiri morðum en þá aðild tókst saksóknurum ekki að sanna á hann og hann neitaði ætíð allri sök.
– Myndin er að stórum hluta tekin upp í Boston og eru mörg útiatriði hennar meira að segja tekin upp á þeim stöðum þar sem þau gerðust í raun.