Septemberblað Mynda mánaðarins er nú komið út og ætti að vera komið á flesta dreifingarstaði seinnipartinn í dag, fimmtudag. Náið ykkur í prentað eintak, en blaðið er líka hægt að skoða hér á kvikmyndir.is.
Blaðið inniheldur að venju kynningar á myndum mánaðarins og er óvenjulegt að þessu sinni að því leyti að það er með þremur forsíðum, einni fyrir DVD-hlutann en tveimur fyrir Bíó-hlutann þar sem íslensku myndirnar Frost og Djúpið skipta með sér upplaginu.
Frost, eftir Reyni Lyngdal, verður frumsýnd þann 7. september og er um að ræða spennumynd sem fjallar um par, þau Öglu, sem er jöklafræðingur, og Gunnar, kvikmyndagerðarmann, sem koma að mannlausum rannsóknarbúðum á hálendi Íslands. Leiðangursmenn virðast hafa horfið á dularfullan hátt og um leið og þau Agla og Gunnar rannsaka málið komast þau að því að þau standa frammi fyrir óþekktu og banvænu afli.
Djúpið, sem verður frumsýnd þann 21. september, er eftir Baltasar Kormák og er lauslega byggð á samnefndu leikverki Jóns Atla Jónassonar, en það var aftur innblásið af þeim einstæða atburði, þegar Guðlaugur Friðþórsson náði að bjarga lífi sínu, einn áhafnarmeðlima, eftir að Hellisey VE503 hvolfdi seint að kvöldi sunnudagsins 11. mars árið 1984.