Ný hrollvekja er á leiðinni ( hún er reyndar ekki með útgáfudag á Íslandi ennþá ) sem lýst hefur verið sem mest hrollvekjandi kvikmynd sem komið hefur í bíó í áraraðir, og hefur verið kölluð Særingarmaður ( The Exorcist ) nýrrar kynslóðar.
Myndin, sem heitir Hereditary, eða Arfgengi, í lauslegri íslenskri snörun, er nú sú mynd sem hrollvekjuunnendur bíða með hvað mestri eftirvæntingu eftir að sjá, eftir að gagnrýnendur sem séð hafa ræmuna, hafa lokið á hana miklu lofsorði.
Leikur Toni Collette í aðalhlutverkinu er lofaður í hástert, en Collette leikur konu í fjölskyldu þar sem að djöflar búa í erfðamengi fjölskyldunnar.
Einn gagnrýnandi, Bustle, sagði myndina „ólíka öllu sem þú hefur séð áður“ og The AV Club kallaði myndina hreinræktuð tilfinningahryðjuverk.
Kvikmynd kemur í bíó í Bandaríkjunm 8. júní nk. og í Bretlandi viku síðar.
Í fimm stjörnu dómi í breska blaðinu The Guardian, segir Peter Bradshaw: „Hreditary þrefaldaði hjartsláttinn hjá mér, lét mig fá gæsahúð á hvirflinum, læknaði þrálátan hiksta – og í einu orði sagt skaut mér verulega skelk í bringu.“
Hann bætti við með tilvíun í verðlaunahátíðir næsta árs: „Það er klárt mál að þessi magnaða leikkona [ Collette ] mun fá eitthvað skraut á hilluna sína í febrúar.“
Handritshöfundurinn Ari Aster fær einnig mikið hrós. Í Vox segir Alissa Wilkinson: „Í fyrsta skipti sem ég sá Hereditary þá veinaði ég oft, og skreið næstum því undir sætið einu sinni eða tvisvar.“
Og áfram hélt hún: „Fyrst upplifir þú hreinan hrylling, en svo fer þetta að blandast við ógeð og óhug, sem magnast svo þegar á líður.“
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan, ef þú þorir!