Hún nefndist Diablo til að byrja með, svo El Diablo, en þá fór tölvuleikjafyrirtækið Blizzard Entertainment í mál, og sögðust eiga rétt á nafninu Diablo. Þá var myndin nafnlaus í dálítinn tíma, en nú hefur einhverjum vitringnum dottið nafnið A Man Apart í hug. Myndin heitir semsagt A Man Apart, og fjallar um það hvernig öflugur eiturlyfjabarón er settur á bak við lás og slá. Um leið og það gerist, sprettur nýr og dularfullur eiturlyfjabarón fram á sjónarsviðið og kallar sig Diablo. Útsendari eiturlyfjalögreglunnar og félagi hans verða að taka höndum saman við gamla eiturlyfjabaróninn til þess að stöðva þessa nýju ógn. Gera má ráð fyrir dauðsföllum og sprengingum. Myndinni er leikstýrt af F. Gary Gray og verður frumsýnd síðar á næsta ári.

