Nýgiftir félagar endurnýja kynnin

Aðalleikari og leikstjóri kvikmyndarinnar Just Married, þeir Ashton Kutcher og Shawn Levy, munu gera aðra kvikmynd saman. Ber hún heitið Overtime, og er gerð fyrir Warner Bros. kvikmyndaverið. Í myndinni leikur Kutcher nýliða í ameríska fótboltanum. Faðir hans, við lok ferilsins, leikur einnig í deildinni með öðru liði. Faðirinn hafði yfirgefið hann og móður hans þegar hann var ungur að aldri, en sér nú eftir öllu og vill sættast við son sinn. Sonurinn vill hins vegar ekkert nema hefnd á vellinum, og þá hefst hatrömm barátta.