Önnur stiklan úr nýjustu kvikmynd leikstjórans David Fincher, Gone Girl, var opinberuð á veraldarvefnum í dag.
Það er Óskarsverðlaunahafinn, leikstjórinn, leikarinn og handritshöfundurinn Ben Affleck sem leikur aðalhlutverkið í myndinni. Affleck fer með hlutverk eiginmanns konu sem hverfur daginn sem þau eiga fimm ára brúðkaupsafmæli, og allt bendir til að hann hafi myrt hana.
Í þessari nýjustu stiklu úr myndinni hefur almenningur snúist gegn eiginmanninnum og liggur mikill grunur á því að hann hafi átt hlut í hvarfi eiginkonu sinnar. Leikarinn Neil Patrick Harris, sem margir þekkja úr gamanþáttunum How I Met Your Mother er einnig kynntur til sögunnar, sem hinn óhugnanlegi Desi Collings.
Rosamund Pike fer með hlutverk konunnar sem hverfur, en Pike hefur áður leikið í myndum á borð við Pride & Prejudice og Jack Reacher.
Gone Girl er byggð á skáldsögu Gillian Flynn og tryggði 20th Century Fox sér kvikmyndaréttinn á bókinni fyrir tugi milljóna dala en bókin hefur selst í bílförmum í Bandaríkjunum.
Myndin verður frumsýnd vestanhafs þann 3. október næstkomandi. Hér að neðan má sjá nýjustu stikluna úr myndinni.