Ný kitla úr fjórðu myndinni um Júragarðinn, Jurassic World, var opinberuð í hálfleik ofurbikarsins í amerískum fótbolta sem fór fram í Bandaríkjunum í gærkvöldi.
Það fer mikið fyrir leikaranum Chris Pratt í kitlunni og sést hann m.a. þjálfa risaeðlur og berjast gegn nýrri tegund sem gengur berserksgang um garðinn og eyðileggur allt sem á vegi hennar verður.
Jurassic World gerist á eyjunni Isla Nublar, þar sem um 20.000 manns heimsækja garðinn á degi hverjum. Fólki er siglt frá Costa Rica og á eyjunni er hótel, golfvöllur, safarí-ferðir, veitingastaðir og auðvitað risaeðlur. Gestir garðsins geta skoðað risaeðlurnar í návígi.
Colin Trevorrow leikstýrir myndinni, en það kom nokkrum á óvart því Trevorrow er nokkuð óreyndur og hefur aðeins leikstýrt einni mynd, Safety Not Guaranteed sem kom út árið 2012.
Með helstu hlutverk í myndinni fyrir utan Chris Pratt fara Omar Sy, Idris Elba, Bryce Dallas Howard, Vincent D’Onofrio, Jake Johnson og Irrfan Khan.