Ný íslensk gamanmynd um menn í vegavinnu frumsýnd í september

Ný íslensk gamanmynd, Á annan veg, verður frumsýnd í september nk.
Myndinni er leikstýrt af Hafsteini G. Sigurðarsyni, og verður hún sýnd á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Tökur á myndinni fóru fram sumarið 2010 á Patreksfirði.

„Á annan veg er meinfyndin og mannleg kómedía sem segir frá tveimur ungum mönnum sem starfa við vegavinnu á afskekktum fjallvegum á 9. áratugnum. Þeir handmála merkingar á malbik og reka niður tréstikur í vegkanta og hafa ekkert nema hvorn annan og tilbreytingalausa vinnuna – sem væri kannski allt í lagi ef þeim líkaði betur hvor við annan.
En eftir að lífið tekur óvænta stefnu læra þeir að meta félagsskap hvors annars og þróa með sér vináttu – enda báðir á krossgötum í lífinu,“ segir í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar; Mystery Ísland og Flickbook Films.

„Við erum mjög stolir af þessari mynd. Þetta var frábært sumar sem við áttum á Patreksfirði og viljum við þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að hjálpa okkur að gera þessa gamansömu sögu að veruleika,“ segir Davíð Óskar Ólafsson, einn af framleiðendum myndarinnar í fréttatilkynningunni.

Í helstu hlutverkum eru þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Hilmar Guðjónsson, Þorsteinn Bachmann og Valgerður Rúnarsdóttir. Hafsteinn leikstýrir myndinni eftir eigin handriti og sögu eftir sig og Svein Ólaf.

Facebook-síða myndarinnar er: facebook.com/aannanveg

Stikk: