Michael Fassbender er niðursokkinn í skissu, í nýrri ljósmynd úr tölvuleikjakvikmyndinni Assassin´s Creed. Um er að ræða mynd af persónunni Callum Lynch í nútímanum, en myndin fjallar um barþjón sem er rænt af leynilegum samtökum og sendur aftur í tímann í gegnum minningar forfeðra sinna sem voru leigumorðingjar.
Eins og sést á myndinni þá er persónan þarna stödd í fangaklefa í samtímanum, en Fassbender leikur einnig í myndinni Aguilar, sverðasveiflandi forföður Lynch, á 15. öldinni. Þökk sé tækninni hjá fyrirtækinu Abstergo Industries, þá getur Lynch ferðast aftur í tímann í gegnum minningar Aguilar.
Í stað þess að nota þessa tækni til að tryggja að forfeður hans, forfaðir og formóðir, nái saman og verði ástfangin, þá dregst hann inn í mikil átök á milli tveggja fylkinga.
Leikstjóri myndarinnar er Macbeth leikstjórinn Justin Kurzel og meðleikkona Fassbender úr Macbeth, Marion Cotillard, er einnig mætti til leiks í Assassin´s Creed.
Myndin kemur í bíó hér á landi og í Bandaríkjunum 26. desember nk.