Nornin Meryl Streep klifrar í tré

Fyrsta myndin hefur nú verið birt af Meryl Streep í hlutverki nornarinnar í söngvamynd Stephen Sondheim Into The Woods. Eins og sést á myndinni sem er hér fyrir neðan, hefur hún greinilega orðið vör við mannaferðir og klifrar upp í tré til að sjá betur hverjir eru á ferðinni.

streep

Myndin á sér rætur í Grimms ævintýrum og fjallar um barnlausan bakara sem vill aflétta álögum af fjölskyldunni og fer til fundar við nornina inni í skóginum.

Á leiðinni hittir hann og eiginkona hans þekktar persónur úr ævintýraheimi Grimmsbræðra, eins og Garðabrúðu, Öskubusku, Jóa ( og baunagrasið ) og Rauðhettu.

James Corden leikur bakarann, Emily Blunt er eiginkonan, Anna Kendrick er Öskubuska, Chris Pine er prinsinn í Öskubuskusögunni, Lilla Crawford er Rauðhetta, Johnny Depp er vondi úlfurinn í Rauðhettu, Annette Crosbie er amma í Rauðhettu, Daniel Huttlestone er Jói, Frances De La Tour er risinn, Tracey Ullman er móðir Jóa og svo framvegis.

Rob Marshall (Chicago, Nine, Memoirs Of A Geisha, Pirates Of The Caribbean: On Stranger Tides) leikstýrir.

Myndin kemur í bíó um jólin á næsta ári.