Leikstjórinn Christopher Nolan er frægur fyrir þagmælsku sína þegar kemur að kvikmyndum sem hann á eftir að frumsýna. Það mætti þó halda að hann myndi láta tónskáldið Hans Zimmer vita um hvað nýjasta mynd hans Interstellar snýst um, en svo er ekki.
Í nýlegu viðtali við tímaritið GQ sagði Zimmer frá því að Nolan leyfði honum ekki að lesa handritið áður en hann fór að vinna við gerð tónlistarinnar að myndinni og að Nolan sé ekki enn búinn að láta hann vita hvað myndin sé um.
„Eina sem ég get sagt er þetta: Áður en ég byrjaði að vinna við tónlistina að Interstellar í janúar þá skrifaði Nolan texta á blað og ég átti svo að koma með hugmyndir að tónlistinni úr þessum litla texta sem var ekki einu sinni um myndina,“ sagði Zimmer.
Zimmer og Nolan hafa áður unnið saman við gerð The Dark Knight og Inception. Ferill Zimmer í kvikmyndatónlist er einn sá glæsilegasti í Hollywood og þó víðar væri leitað. Zimmer varð fyrst þekktur fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Rain Man, árið 1988 og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir það verk. Eftir það fylgdu myndir á borð við Driving Miss Daisy, Thelma & Louise og The Power of One. Zimmer vakti seinna meir athygli Disney kvikmyndafyrirtækisins, sem fékk hann í sínar raðir til þess að semja tónlistina við teiknimyndina Lion King árið 1992.
Síðar fylgdu margar Hollywood stórmyndir í kjölfarið undir tónum Zimmers, m.a. Gladiator, Pearl Harbour, Pirates of the Carribbean, The Dark Knight og Inception.
Interstellar skartar stjörnum á borð við Matthew McConaughey, Anne Hathaway, Jessica Chastain, Michael Caine, Casey Affleck og Topher Grace. Myndin verður frumsýnd þann 7. nóvember næstkomandi.