Biblíusagan um Nóa mun sigla í kvikmyndahús í Bandaríkjunum og á Íslandi nú um helgina, og vonast aðstandendur til að myndin muni trekkja vel að.
Sérfræðingar ytra áætla að myndin muni verða sú mest sótta um helgina og þéna um 40 milljónir Bandaríkjadala, en hún kostaði 130 milljónir dala í framleiðslu. Eins og kunnugt er var myndin tekin hér á Íslandi, og því er ekki ólíklegt að Íslendingar flykkist í bíó til að sjá landið sitt í risastóru hlutverki í bíómynd.
Leikstjóri myndarinnar er Darren Aronofsky.
Eins og segir á vefsíðu Los Angeles Times þá mun myndin, ef hún slær í gegn, verða önnur Biblíumyndin á árinu til að njóta umtalsverðrar velgengni, en myndin Son of God, um líf og störf Jesú Krists, hefur gengið ágætlega í bíó í Bandaríkjunum það sem af er ári.
Son of God þénaði 25,6 milljónir dala á fyrstu sýningarhelgi sinni í Bandaríkjunum, en tekjur nema alls 56 milljónum dala.
Þá hefur myndin God´s Not Dead, sem var frumsýnd um síðustu helgi, og er nútíma drama sem gerist á heimavist í menntaskóla, gengið mjög vel, og þénað 9,2 milljónir dala.
God´s Not Dead fjallar um menntaskólanemann trúaða Josh Wheaton, sem fer að efast um tilvist Guðs eftir að hafa hlustað á heimspekiprófessor í skólanum sem trúir ekki á Guð.
Noah hefur verið umdeild og menn ekki á eitt sáttir við tök leikstjórans Darren Aronofsky á Biblíusögunni, en gagnrýnendur og almenningur sem séð hefur myndina hefur verið almennt jákvæður. Myndin hefur nú þegar verið bönnuð í nokkrum löndum, þar á meðal í stærsta múslimaríki heims, Indónesíu.
Fleiri trúarlegar myndir eru á leiðinni í bíó í Bandaríkjunum, og eru helstar þær Heaven is for Real, Exodus, Last Days in the Desert og Mary. Skemmst er að minnast í þessu samhengi hinnar vinsælu myndar Mel Gibson, The Passion of the Christ sem kom út fyrir tíu árum síðan.
Í Noah leikur Russell Crowe Nóa úr Biblíusögunni um Örkina hans Nóa, sem fær vitrun og sér sýnir um hellirigningu sem myndi valda alheimsumróti. Hann ákveður að sitja ekki og bíða heldur undirbúa sig fyrir flóðið sem hann telur vera í vændum til að vernda fjölskyldu sína og dýr jarðar. Aðrir helstu leikarar eru Anthony Hopkins, Jennifer Connelly og Emma Watson.
Af öðrum myndum í bíó í Bandaríkjunum nú um helgina er það að segja að toppmynd síðustu viku, unglingamyndin Divergent, með Shailene Woodley í aðalhlutverki, ætti að ganga áfram vel, en vonast er til að hægt sé að framleiða seríu af Divergent myndum, líkt og gert hefur verið með The Hunger Games sögurnar, enda er myndin af svipuðum toga.
Nýr spennutryllir Arnold Schwarzenegger, Sabotage, er líkleg til að hljóta blendnar viðtökur miðað við fréttir, en myndin fjallar um fíkniefnalögreglusveit sem þarf að takast á við valdamikinn og miskunnarlausan fíkniefnabarón. Búist er við 10 milljón dala tekjum af myndinni nú um helgina, en hún kostaði 35 milljónir dala í framleiðslu.
Þá má nefna að nýjasta mynd Wes Anderson, The Grand Budapest Hotel, sem forsýnd var hér á landi um síðustu helgi, og frumsýnd um þessa, ætti að ganga vel, en myndin hefur nú þegar þénað 14 milljónir dala í Bandaríkjunum þrátt fyrir takmarkaða dreifingu.