Ninja æði greip kvikmyndahúsagesti á níunda áratugnum þegar Cannon Films, í eigu ísraelsku frændanna Menaham Golan og Yoram Globus, dældu þeim út í massavís. Þeir ríflega og rétt tæplega fertugu kannast vafalaust við þessa titla á hillum vídeóleiganna forðum daga þegar kínaskór seldust vel í búðum og góð aðsókn var í karate kennslu.
Útgáfufyrirtækið 88 Films í Bretlandi hafa skellt „American Ninja“ seríunni í háskerpu og hafa útbúið veglegan pakka fyrir unnendur myndanna. Michael Dudikoff varð hasarstjarna í smá tíma og reyndi að taka að sér meira krefjandi hlutverk í kjölfarið en hans verður ávallt minnst sem Óbreytts Joe T. Armstrong sem tuskaði vondar ninjur til á hinn eina sanna ameríska máta. Annað smástirni, Steve James, var honum til halds og trausts í baráttunni en hann fékk sviðsljósið út af fyrir sig í þriðju myndinni. Dudikoff snéri þó aftur í fjórðu myndinni.
Allar fjórar myndirnar eru nú fáanlegar í flottum pakka eða stakar. Meðal aukaefnis eru yfirlestrar fyrir fyrstu tvær myndirnar og heimildarmynd í fullri lengd um gerð myndanna. Að mörgu leyti áhugaverður pakki fyrir „nostalgíu“ fíkla og þá sem ólust upp við þessar óneitanlega hallærislegu hasarmyndir sem gerðar voru fyrir frekar lítinn pening og voru alfarið ætlaðar áhrifagjörnum ungmennum. Mynd- og hljóðgæði þykja almennt góð og bretarnir í 88 Films auka við þegar áhugavert úrval af „költ“ myndefni í háskerpu.
Golan og Globus fóru fyrst af stað í Ninja hasarnum með „Enter the Ninja“ með engum öðrum en upphaflega Django sjálfum Franco Nero í aðalhlutverki. „Döbbið“ og einangruð staðsetning atburða, s.s. skógar og lokuð geymslurými, ljóstra upp frekar lágum framleiðslukostnaði en hasarinn er mikill og ninjurnar láta ljós sitt skína með sífelldum háum stökkum og spörkum og nær óeðlilegum liðleika. Myndinni var fylgt eftir með „Revenge of the Ninja“ og var hún meira af því sama. Mestmegnis er þetta yfirgengilegur hasar með nær endalausri uppsprettu af ninjum í bland við slæmt „döbb“, stirðbusalega frammistöðu leikara og kjánalega skrifuð samtöl. Í stuttu máli; alveg eins og þetta á að vera.
Bandaríska útgáfufyrirtækið Kino Lorber, eins konar bjargvættur gleymdra mynda, færir áhugasömum „Enter the Ninja“ og „Revenge of the Ninja“ á Blu-ray. Mynd- og hljóðgæði þykja í meðallagi en nokkuð ljóst er að þessar myndir munu ekki líta betur út á heimamarkaðnum. Leikstjóri „Revenge of the Ninja“ veitir yfirlestur en einungis stikla prýðir „Enter the Ninja“. Þessar tvær eru eðal skemmtun með nokkrum köldum í góðra vina hópi.
Stiklan úr „Enter the Ninja“