Plottið í Stolen hljómar eflaust mjög kunnuglega. Dóttur aðalpersónunnar, meistara í sínu fagi, er rænt og þarf hann að rifja upp alla gömlu taktana til að eiga möguleika á að bjarga henni. Stolen er nýjasta mynd Óskarsverðlaunahafans Nicolas Cage og er leikstýrt af Simon West (engir Óskarar þar) sem mætir til leiks beint eftir hasarveisluna The Expendables 2.
Myndin er samt kannski ekki alveg eins mikið Rip-off af Liam Neeson snilldinni Taken og það hljómar við fyrstu sýn, því í þessari mynd er söguhetjan fyrrverandi meistaraþjófur, ekki fyrrverandi útsendari CIA. Það er nú líka ekki eins og Taken hafi haft frumlegasta plott í heimi, þar var það útfærslan sem skipti öllu. Spurningin er bara hvernig útfærslan hér muni virka? Sjáið stikluna hér og dæmið sjálf:
Ferill Cage síðustu hvað, 10 árin, hefur verið algjör steypa að fylgjast með, þar sem hann leikur í hverju stórslysinu á fætur öðru (tökum bara 2011 myndirnar Season of the Witch, Drive Angry, Trespass og Seeking Justice sem dæmi) og svo svona einni og einni alveg frábærri mynd inn á milli (Kick-Ass, Bad Lieutenant, Adaptation). Ég hallast nú persónulega að því að Stolen muni ekki verða á meðal mynda hans sem minnst verður sem hápunkta í framtíðinni, en hvað veit ég? Kannski hefur Cage gott af því að sameinast leikstjóra Con-Air aftur?