Einhver gæti kannski haldið að það sé vegna væntanlegrar frumsýningar hinnar ógnarlöngu Martin Scorsese kvikmyndar The Irishman á Netflix, sem er þriggja og hálfs tíma löng, að fyrirtækið hyggst breyta spilunartíma kvikmynda og sjónvarpsþátta, en svo er þó ekki.
The Playlist segir frá því að Netflix streymisrisinn sé nú að gera tilraunir með mismunandi spilunarhraða í Netflix appinu.
The Playlist vísar í frétt frá Android Police, en þar segir að einhverjir notendur snjallsíma með Android stýrikerfið, hafi tekið eftir nýrri virkni í Netflix appinu, sem leyfi þeim að spila kvikmyndir og sjónvarpsþætti mis hratt, allt frá 50% af upprunalegum hraða, og upp í 150%. En afhverju í veröldinni ætli Netflix vilji bjóða mönnum að horfa á efni á slíkum yfirsnúningi? Jú, fólk nú til dags hefur sífellt minni tíma til að horfa á efni. Kvikmyndirnar gerast einfaldlega of hægt, eða hvað!
Sú hugmynd að innbyrða efni á auknum hraða er ekki ný af nálinni. Þetta hefur t.d. lengi verið hægt með hljóðbækur, en ekki er endilega erfitt að hraðspóla sig í gegnum bækur og innbyrða allt efnið. Spurningin er hvort að það sé jafn auðvelt þegar myndefni á í hlut?