Gamanleikarinn Neil Patrick Harris verður kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni, sem fer fram í 87. sinn þann 22. febrúar á næsta ári. Harris hefur áður verið kynnir á verðlaunahátíðum á borð við Tony-verðlaunin og Emmy-verðlaunin, en þetta verður í fyrsta skipti sem hann kynnir Óskarsverðlaunin.
Harris er þekktastur fyrir aðalhlutverkin í Doogie Howser, M.D., sem og kvennabósinn Barney Stinson í How I Met Your Mother. Einnig er hann þekktur fyrir leik sinn í Harold & Kumar-myndunum þar sem hann leikur sjálfann sig.
Akademían hefur síðustu ár reynt að laða yngri áhorfendur að Óskarsverðlaunahátíðinni og var m.a. fengið James Franco og Anne Hathaway til að kynna um árið. Þau komu ekki vel út og ári seinna var Billy Crystal mættur á nýjan leik eftir margra ára hlé, og þótti það öruggt skref hjá akademíunni.
Ellen DeGeneres var kynnir á síðasta ári þegar rúmlega 43 milljónir manna horfðu á. Um var að ræða sannkallað metáhorf því ekki höfðu fleiri horft á sjónvarpsefni ótengt íþróttum í tíu ár, eða allt frá því að lokaþáttur Friends fór í loftið árið 2004. Áhorf á Óskarsverðlaunin hefur aukist gífurlega á síðustu þremur árum og var u.þ.b. 6% áhorfsaukning frá 2013 til 2014.