Nasistaleiðtogi er skotmarkið – Fyrsta stikla úr The Man With the Iron Heart

Eftir velgengni glæpatryllisins The Connection, sem var með franska leikaranum Jean Dujardin í aðalhlutverki, þá snýr leikstjórinn Cédric Jimenez nú aftur með nýja mynd, Seinni heimsstyrjaldartryllinn The Man With the Iron Heart,  og enn fleiri fræga leikara í leikarahópnum.

Aðalhlutverkið er í höndum Jason Clarke og Rosamund Pike en Jack O’Connell, Jack Reynor og Mia Wasikowska, fara einnig með stór hlutverk.


Í fyrstu stiklu fyrir myndina sjáum við tvo unga menn sem ætla að ráða háttsettan nasistaleiðtoga af dögum.

Myndin gerist þegar Þriðja ríkið rís hvað hæst, árið 1942. Tékkneska andspyrnuhreyfingin í London skipuleggur metnaðarfulla áætlun, sem gengur undir nafninu Anthropoid. Tveir menn á þrítugsaldri, þeir Jozef Gabcik og Jan Kubis, eru sendir til Prag til að ráða hinn miskunnarlausa nasistaleiðtoga Reinhard Heydrich, leiðtoga SS og Gestapo, af dögum.

Myndin verður frumsýnd í Frakklandi 17. júní nk. og í Bandaríkjunum af The Weinstein Company í framhaldinu.

Sjáðu stikluna og plakatið þar fyrir neðan: