Fréttablaðið greinir frá því í dag að spennubókarithöfundurinn Arnaldur Indriðason sé búinn að skrifa undir samning við tvo erlenda kvikmyndaframleiðendur, Yellow Bird og Molten Rock Media, sem hafa hug á að kvikmynda bók hans Napóleonskjölin. „Það hefur alltaf verið mín skoðun að Napóleonsskjölin hafi upp á margt að bjóða sem alþjóðleg spennumynd. Ekki síst áhugaverða kvenhetju,“ segir Arnaldur í samtali við blaðið.
Yellow Bird Pictures, sem er sænskt kvikmyndafyrirtæki, hefur meðal annars kvikmyndað bækur spennubókahöfundarins Henning Mankell og Cornelíu Funke. Framkvæmdastjóri þess er Oliver Schundler sem hefur framleitt myndirnar Das Boot og The Never ending Story. Ralph Christians hjá Molten Rock Media, sem er þýskt kvikmyndafyrirtæki, var m.a. framleiðandi teiknimyndarinnar um Þór.
Christian segir í frétt blaðsins að tökur hefjist líklega eftir árið 2014 á Íslandi.
Napóleonskjölin eru þriðja bók Arnaldar Indriðasonar, en rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur kemur ekki fram í bókinni. Bókin segir frá því þegar gamalt flugvélarbrak kemur upp úr ísnum í Vatnajökli. Af ókunnum ástæðum er bandaríski herinn á Miðnesheiði settur í viðbragðsstöðu. Þegar Kristín, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, tekur að grafast fyrir um málið er hún rekin á háskalegan flótta til að bjarga lífi sínu.
Búið er að gera eina mynd eftir bók Arnalds Indriðasonar, Mýrin.