Naktir karlar slást í opnunarmynd RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, var sett í 14. skipti í gærkvöldi, en boðið er upp á 200 myndir af ýmsum toga frá ýmsum löndum á hátíðinni sem stendur til 8. október nk.

Opnunarmynd hátíðarinnar var dansk-íslenska kvikmyndin Vetrarbræður sem er fyrsta mynd leikstjórans Hlyns Pálmasonar frá Höfn í Hornafirði, í fullri lengd. Myndin er tekin upp í Danmörku og allir leikarar eru danskir.

Hlynur, sem er lengst til vinstri á myndinni hér til hliðar, sagði í ávarpi sínu að þetta væri fyrsta frumsýning myndarinnar sem hann væri viðstaddur sjálfur, og lýsti ánægju sinni með að vera kominn með myndina til Íslands. Hann sagðist ennfremur vera afar stoltur af verkinu og vonaði að gestir myndu njóta upplifunarinnar, eins og hann orðaði það.

Myndinni var fagnað með lófaklappi og húrrahrópum eftir að sýningu hennar lauk, enda er hér á ferðinni 

 

virkilega flott kvikmynd. Tónlistin er áhrifarík, yfirbragðið, litur, kvikmyndataka og leikmynd, gefa henni oft átakanlegan blæ og leikur er mjög góður. Mörg atriði sitja eftir í huga manns í lok myndar, ekki hvað síst magnaður slagur nakinna bræðranna tveggja sem eru í miðju sögunnar. En sjón er sögu ríkari.

Að lokinni sýningu myndarinnar var frumsýningargestum boðið til opnunarteitis í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur þar sem leikkonan og kvikmyndagerðarkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir flutti hátíðargusuna, en það er fastur liður við opnun RIFF. Sagði Unnur meðal annars í ræðu sinni að listin væri meira en afþreying, hún væri hreyfiafl í samfélaginu. Uppskar hún klapp og húrrahróp viðstaddra.

Við á kvikmyndir.is vonum að sem flestir sjái sér fært að sækja hátíðina, sem jafnan er sannkölluð veisla fyrir kvikmyndaáhugafólk, og í raun alla sem áhuga hafa á lífinu, listinni og samfélaginu almennt.

VETRARBRÆÐUR (Vinterbrodre) – trailer from Join Motion Pictures on Vimeo.