Naglahaus hrellir á ný

Hrollvekjumeistarinn Clive Barker tilkynnti í síðustu viku um endurkomu sína í heim hrollsins.  Barker er þekktur fyrir að hafa m.a. leikstýrt hinni upprunalegu Hellraiser mynd.

Hann leitar ekki langt yfir skammt og ætlar sér nú einfaldlega að endurgera Hellraiser með Doug Bradley aftur í aðalhlutverkinu, hlutverki Pinhead, Naglahauss ( sjá meðfylgjandi mynd ) – einum af munkum helvítis.

hellraiser

Munkarnir voru sadó-masókistar sem hrelltu og pyntuðu þá sem í sakleysi sínu opnuðu forvitnilegt töfrabox sem kallaðist harmakvælakassinn  ( e. Lament Configuration ).

„Fyrir nokkrum vikum átti ég góðan fund með Bob Weinstein hjá Dimension Pictures, þar sem ég kynnti hugmynd mína um endurgerð Hellraiser,“ skrifaði Barker á Facebook síðu sína.  „Sú hugmynd að ég sjálfur endurgeri upprunalegu myndina mína með ferskri ákefð – með virðingu fyrir byggingu og inntaki myndarinnar, en vonandi að gera jafnvel enn myrkari heim og margbrotnari – var eitthvað sem heillaði Dimension. Í dag var mér opinberlega boðið að skrifa handritið eftir þessari hugmynd minni.“

Pinhead kom fyrst við sögu í skáldsögu Barkers frá árinu 1986, The Hellbound Heart. Átta framhaldsmyndir voru gerðar af fyrstu myndinni.