Leikarinn sívinsæli Tom Hanks hefur opinberlega ákveðið næstu tvö verkefni sín. Sú fyrri nefnist Polar Express, og er verkefni sem hann er búinn að vera að vinna að undanfarin ár með félaga sínum, leikstjóranum Robert Zemeckis. Fjallar hún um ungan dreng sem verður fyrir því láni að lestarstjóri einn í töfralest, nær í hann á aðfangadagskvöld og fer með hann til norðurpólsins að hitta jólasveininn. Þar má hann velja sér það leikfang sem hann langar mest í. Myndin er byggð á samnefndri og margverðlaunaðri barnabók eftir Chris Van Allsburg frá árinu 1986. Zemeckis og handritshöfundurinn William Broyles eru að skrifa handritið, og tökur á myndinni ættu að hefjast í febrúar með frumsýningu jólin 2004 í huga. Síðari myndin verður endurgerðin af Ladykillers frá 1955, sem bræðurnir Coen eru að vinna að. Myndin fjallar um hóp þjófa sem taka sér búfestu í húsi gamallar konu meðan þeir eru að fela sig frá lögreglunni. Þeir reyna síðan sífellt að losa sig við gömlu konuna, en það reynist hægara sagt en gert. Tökur á þeirri mynd munu hefjast um leið og Coen bræðurnir ljúka vinnu við Intolerable Cruelty sem þeir eru að gera með George Clooney og Catherine Zeta-Jones og um leið og Hanks lýkur vinnu við Polar Express.

