Náðu í appið
Bönnuð innan 12 ára

The Three Musketeers 2011

(Skytturnar þrjár)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 21. október 2011

Every legend has a new beginning.

110 MÍNEnska

Hér segir af hinum unga D’Artagnan sem þráir ekkert heitar en að verða ein af skyttunum sem gæta konungsins og berjast á móti þeim öflum sem vilja steypa honum af stóli. Hann heldur því úr sveitinni í borgina þar sem hann hittir hina hugumprúðu Porthos, Aramis og Athos, en þeir eru öflugustu og bestu skyttur konungs. Skytturnar þrjár láta heillast af ákafa... Lesa meira

Hér segir af hinum unga D’Artagnan sem þráir ekkert heitar en að verða ein af skyttunum sem gæta konungsins og berjast á móti þeim öflum sem vilja steypa honum af stóli. Hann heldur því úr sveitinni í borgina þar sem hann hittir hina hugumprúðu Porthos, Aramis og Athos, en þeir eru öflugustu og bestu skyttur konungs. Skytturnar þrjár láta heillast af ákafa D’Artagnans og fimi og ákveða að taka hann undir sinn verndarvæng og kenna honum það sem vantar upp á hjá honum til að hann geti orðið skytta. Og tækifærið til að sanna sig lætur ekki á sér standa því óvinir konungs í austri og vestri hafa ákveðið að snúa bökum saman og ráðast á konungsveldi Frakka. Áður en varir hefst innrásin og er óhætt að segja að skytturnar þrjár auk hins unga D’Artagnans fái brátt nóg að gera því óvinirnir eru lúmskir og ráða auk þess yfir glænýrri tegund af loftskipum sem virðast í fyrstu vera ósigrandi ...... minna

Aðalleikarar

Milla Jovovich og Skytturnar þrjár og hálf
Eins og það sé ekki þegar nógu pirrandi að Paul W.S. Anderson skuli vera með mjög svipað nafn og einn uppáhalds leikstjórinn minn, þá þarf hann enn eitt skiptið að fara í mínar fínustu með því að eyðileggja möguleikana fyrir enn einu gæðaefninu, ef svo má orða það. Við erum að tala um leikstjóra sem hefur oft fengið frábært efni í hendurnar en tekur síðan frústrerandi ákvarðanir sem koma í veg fyrir að góð mynd verði til úr vinnubrögðum hans. Gleymum því ekki að þetta er sami maður og gerði PG-13 útgáfurnar af Mortal Kombat og Alien vs. Predator. Mér er svosem sama þegar hann tekur vond handrit og gerir úr þeim vondar bíómyndir með ágætum hasar og stíl, en þegar hann misþyrmir Skyttunum þremur eins og graður unglingur þá verður enn sorglegra að sjá afraksturinn.

Undanfarið hefur aðeins tvennt verið áberandi hjá Anderson: Hann elskar að ofnota slow-motion (því það er svo kúl, er það ekki?) og nýtur þess í botn að monta sig yfir því hvað eiginkonan hans er heit. Milla Jovovich hefur staðið sig vel áður sem leikkona en hún hefur líka staðið sig hörmulega, oftar. Í myndum eins og Resident Evil er mér meira eða minna skítsama um frammistöðu hennar, en þegar Anderson treður henni í mynd eins og The Three Musketeers - sem hún virðist alls ekki eiga heima í - þá kemur hann bara verr út.

Aukahlutverk hefði sloppið en maðurinn gefur henni eins mikið að gera og sagan leyfir. Flest öll slow-mo skotin eru með henni, og þá í atriðum sem eiga að vera ofsalega töff en koma bara tryllt asnalega út, eins og Alice úr Resident Evil hafi allt í einu birst í búningadrama. Konan hlýtur að vera algjört villidýr í rúminu, ekki nema Anderson sé bara svona kúgaður eiginmaður. Hann þarf að læra að taka mann eins og Steven Spielberg til fyrirmyndar. Ekki gerði hann þau mistök að nota Kate Capshaw endalaust aftur eftir fyrstu myndina þeirra saman. Í staðinn hélt hann sjálfsvirðingu sinni og vissi að hún væri óþolandi.

Jovovich er samt alls ekki það eina sem dregur myndina niður, LANGT frá því. Hún er samt klárlega sú manneskja sem passar minnst inn í myndina, og hreimurinn hennar (eða skorturinn á slíkum) er meira áberandi heldur en hjá Logan Lerman. Það er samt ýmislegt sem þessi mynd gerir rétt, og þrátt fyrir nokkrar undantekningar þá er ég nokkuð hrifinn af leikaravalinu. Matthew MacFadyen, Luke Evans (sem gæti auðveldlega verið bróðir James McAvoy) og Ray Stevenson eru vel valdir í hlutverk þríeykisins, Lerman er ekki slæmur, Daninn Mads Mikkelsen kemur vel út sem kvikindið Rochefort og Christoph Waltz er orðinn hámenntaður í illmennahlutverkinu.

Það vantar svosem ekki að leikararnir smelli flestir í hlutverk sín en þeir koma þó ekkert alltof vel út vegna þess að handritið er í orðsins fyllstu merkingu SORP (í Caps lock-stöfum og læti). Sagan er sundurtætt, línurnar stirðar, framvindan óhnitmiðuð, endirinn einkennilega ófullnægjandi og persónurnar allar tvívíðar og óspennandi, sama hve mikið er reynt að bæta úr því. Það er eiginlega ekkert gott hægt að segja um þetta handrit burtséð frá áhugaverðum plottþráðum sem komu beint frá Alexandre Dumas sjálfum, og kannski nokkrum sniðugum hugmyndum, eins og að troða loftskipum í söguna. Voða Jules Verne-legt.

Anderson kann að beita myndavélinni og leika sér með útlit í gegnum tæknibrellur (3D-kortin og stílíseruðu skotin voru býsna svöl), en hann er greinilega með engan gæðastandard á handrit og einnig alveg ónýtur með leikara, nema þá sem eru nógu góðir til að geta bjargað sér frá vondum línum. Leikarar eins og Jovovich, Til Schweiger og sérstaklega Orlando Bloom eru alveg úti á þekju hérna og hef ég sjaldan séð þau jafn hlægileg. Hinir eru allir ágætir en handritið gerir ekkert skemmtilegt með karakterana. Skytturnar sjálfar hefðu getað verið þrefalt skemmtilegri persónur en þær voru og sama má segja um illmennið. Þó svo að Christoph Waltz sé góður leikari með einn óaðfinnanlegan leiksigur að baki (og þá í hlutverki illmennis) þá þýðir það ekki að hann standi sig snilldarlega í öllum sambærilegum hlutverkum sem bjóðast honum. Þetta er þriðja myndin á bara þessu ári þar sem ég sé hann leika vonda kallinn (hinar voru The Green Hornet og Water for Elephants) og stóð hann sig prýðilega í tveimur þeirra. Í þessari mynd skildi hann ekkert eftir sig og fellur meira að segja í skugga Tims Curry, sem lék sama hlutverk bara betur í samnefndu myndinni frá ’93. Það voru nú reyndar langflestir betri þar ef út í það er farið. Líka betri mynd.

Eins svakalega, svakalega vond og þessi mynd er þá má hún samt eiga það að vera nógu aulalega skemmtileg á köflum til að koma í veg fyrir að hún skrapi botninn. Anderson sýnir hasarnum nógu mikinn áhuga, leikararnir gera það sem þeir geta og vegna orkunnar get ég ómögulega sagt að mér hafi leiðst. Stundum varð myndin svo hallærisleg og yfirdrifin að hún breyttist ósjálfrátt í guilty-pleasure afþreyingu.

Ég hefði jafnvel gefið þessu metnaðarfulla klúðri hátt í sjöu í einkunn ef hún hefði ekki fretað svona framan í andlitið á mér í lokasenunum. Af óskiljanlegum ástæðum ákveður handritið að fresta því að ljúka sögunni á fullnægjandi máta og býr í staðinn til einhvern versta sequel bait-endi sem ég hef séð á öllu árinu. Í lokin verður Anderson svo upptekinn að því að stilla upp mögulegri framhaldsmynd að hann virðist ekkert spá í því að hann er að svíkja áhorfendur í leiðinni. Og mér er skítsama þótt að þetta sé afþreyingarmynd frá leikstjóra sem hagar sér eins og unglingur, það er fyrir neðan allar hellur hvað lokasenan reynir mikið á trúverðugleika áhorfandans. Ónefnda aðalpersónu er þarna um að ræða.

Alveg eins og eiginkonan hans þá er Anderson alveg á kolvitlausu setti. Með öðrum leikstjóra og að sjálfsögðu öðrum handritshöfundi hefði hiklaust verið hægt að gera eitthvað rosalega skemmtilegt úr þessu, alls ekkert ósvipuðu Pirates of the Caribbean og Sherlock Holmes. Leikaravalið er nógu skothelt, sviðsmyndirnar góðar, búningar sannfærandi og kamerumaðurinn greinilega flinkur. Þessi mynd er að vísu ekki jafn hörmuleg og The Musketeer, sem Peter Hyams gerði árið 2001, en hún er kílómetrum frá því að vera jafn fullnægjandi og ’93-myndin þar sem Kiefer Sutherland, Oliver Platt og Charlie Sheen léku Skytturnar. Hún var skrambi góð bara. Þessi er óvenjulega þolanleg sorphrúga sem er í senn hallærislega skemmtileg. En sorphrúga engu að síður.

5/10

Eigum við síðan að ræða það hvað rammarnir með persónunöfnunum komu illa út? Spes líka hvernig bara Skytturnar og Milla Jovovich voru kynntar en enginn annar karakter, sama hversu mikilvægur. Æ, Paul.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn