Nú á tímum mynda eins og X-Men og hinna væntanlegu Spiderman og Batman: Year One mynda finnst mér það við hæfi að skoðaðar séu aðeins "eldri" teiknimyndasögumyndir til þess eins að sjá hvað t.d. Bryan Singer gerði rangt. Að mínu mati eru fyrstu tvær Batman myndirnar bestu myndasögumyndirnar þó þær séu mjög ólíkar upprunalegu teiknimyndasögunum sem þær voru byggðar á og fór það mjög mikið í taugarnar á sumu fólki. Dick Tracy er hins vegar eins lík myndasögunni og hægt er; allt er yfirdrifið og ýkt, allar persónur heita nöfnum sem eru sambærileg útliti þeirra o.s.frv. og myndin er tekin upp í flottum myndasögulegum stíl þar sem aðeins örfáir, skærir og ýktir litir sjást hverju sinni. Warren Beatty leikstýrði myndinni ásamt því að framleiða hana og leika aðalhlutverkið, alræmdu lögguna Dick Tracy. Í myndinni þarf Tracy að kljást við Big Boy Caprice (óþekkjanlegur Al Pacino), glæpaforingja sem ætlar sér að yfirtaka glæpaheiminn, og svo þarf hann að velja á milli tveggja stúlkna: kærustunnar Tess Trueheart (Glenne Headly) og hinnar kynþokka - og dularfullu Breatless Mahoney (Madonna). Stærsta afrek myndarinnar er útlitið, líkt og hjá Tim Burton með Batman, en gallinn við Dick Tracy er að sárlega vantar loka-climax því myndin leyfir sér ekki að hafa einhvern fullnægjandi endi. Einnig gengur Beatty aðeins of langt í subplottum og frekar tilgangslausum aukapersónum, en allt er þetta gert til þess að reyna að auka á stærð og fjölbreytileika myndarinnar. Beatty stendur sig samt mjög vel á bak við myndavélina sem og fyrir framan hana; hann er alveg fullkominn Dick Tracy. Madonna er sjóðheit og sexy sem söngkonan og vandræðastúlkan Breathless og fær stúlkan einnig að syngja nokkur lög. Glenne Headly veitir myndinni einhvern raunveruleika sem vegur á móti öllu hinu og er kannski hægt að segja að hún standi sig hvað best með frábærum leik. Al Pacino stelur þó myndinni með ótrúlega ýktri og skemmtilegri frammistöðu sem jafnast næstum því á við Jack Nicholson í Batman. Mér fannst Dick Tracy alveg stórkostleg mynd alveg fram að síðustu mínútunum en að mínu mati vantaði alveg fullnægjandi endalok. Annars er þetta stórskemmtileg og flott hasarmynd og ættu komandi myndasögumynda leikstjórar að taka hana sér til fyrirmyndar. Svo er tónlistin líka eftir Danny Elfman og því getur myndin ekki verið alslæm...
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei