Náðu í appið
Öllum leyfð

When in Rome 2010

Frumsýnd: 26. mars 2010

Did you ever wish for the impossible?

91 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 17% Critics
The Movies database einkunn 25
/100

Beth er ung og metnaðargjörn New York mær, sem er afar óheppin í ástum. En þetta á eftir að breytast þegar hún einn daginn skellir sér í frí til Rómar og stelur þar nokkrum smápeningum úr ástarbrunni. Eftir það á hún fótum fjör að launa frá ágengum biðlum sem þrá hana heitar en nokkuð annað.

Aðalleikarar

Ómarkviss della
Mark Steven Johnson tekur hérna alveg merkilega stórt stökk út fyrir sitt þægindasvæði, þó svo að það megi deila um það hversu vel hann stóð sig með ofurhetjumyndirnar tvær sem sitja á ferilskránni hans (ekki berja samt vitið úr Daredevil að óþörfu - horfið á lengri útgáfuna). Ég myndi samt gagnrýna þessa skiptingu minna ef When in Rome hefði endað með því að vera sæt, heillandi og fyndin lítil ástarsaga. Hún er ekkert af þessu. Í besta falli fær hún fjórðung af hverju lýsingarorði.

Myndin er bara stundum sæt (þökk sé Josh Duhamel - sem selur sinn karakter alveg undarlega vel), stundum heillandi (viti menn, Duhamel aftur!) og aðeins fyndin í litlum skömmtum og það er öllu leikaraliðinu að þakka fyrir að hafa gert sig að sannfærandi aulum í heilar 90 mínútur, en það er jafnframt stór galli í þeirri lýsingu því þeim tókst ekki að gera betur en að framkalla bros og fliss allan þennan tíma í stað þess að hafa mann veltandi um af hlátri. Ég hefði líklegast fyrirgefið þessu steikta, klúðurslega og illa unnu handriti ef húmor hefði staðið upp úr. En hann gerði það ekki svo í staðinn var ég bara orðinn frekar þreyttur á því sem ég var að horfa á.

Kristen Bell reynir sitt besta og hún gerir ýmislegt betur en handritið býður upp á. Annars er það Duhamel sem skilur mest eftir sig, en jafnvel hann á það til að vera fórnarlamb pínda húmorsins sem hér finnst duglega dreifður. Sumar senur eru meira að segja svo vandræðalegar að þær eru látnar enda með því að láta manneskju reka sig í eða detta niður í holræsi að óþörfu. Johnson er augljóslega heldur óöruggur í leikstjórastólnum sínum (ég væri það líka ef ég væri að gera mína fyrstu mynd eftir Ghost Rider) og stundum er eins og hann viti hreinlega ekki hvernig betur á að gera hlutina en að toga út óhentugu slapstick-gríni.

Stíllinn á gríninu er að vísu pínulítið retró og ég meina það alls ekki á vondan hátt. Það sem böggar mig meira við hann er einungis það að leikstjórinn þekkir ekki hvenær tímasetning virkar best hjá gríni. Allavega, svo ég flýti mér að samantektinni þá verður að segjast að 2010 hefur ekki hingað til verið gott ár fyrir rómantískar gamanmyndir. Ég meina, Leap Year, Valentine's Day, The Bounty Hunter og nú When in Rome. Ég veit ekki einu sinni hvernig þessi mynd mun leggjast í markhópinn sinn því hún er bara of kjánaleg og veit ekki alveg hvort hún vilji vera steikt mynd með smá hlýju eða barnalegur farsi með rómantík sem aukaplott. Það er fullt af betra efni þarna úti þó þessi hafi sína spretti, en svo fáir sprettir réttlæta ekki tímann eða peninginn sem gæti farið í að horfa á myndina.

4/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn