Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Shorts 2009

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Not So TALL Tales From The Director Of 'Spy Kids'

89 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 47% Critics
The Movies database einkunn 53
/100

Eddie og Betty (Campbell Westmoreland og Zoe Webb) eru tvíburar sem eru í störukeppni, en hún á eftir að vinda upp á sig... Toby Thompson (Jimmy Bennett), sem alltaf er kallaður Toe, er lagður í einelti af Helveticu Black (Jolie Vanier) og bróður hennar, Cole (Devon Gearhart), en þegar hann finnur óskastein breytast örlög hans skyndilega. Bræðurnir Loogie, Laser... Lesa meira

Eddie og Betty (Campbell Westmoreland og Zoe Webb) eru tvíburar sem eru í störukeppni, en hún á eftir að vinda upp á sig... Toby Thompson (Jimmy Bennett), sem alltaf er kallaður Toe, er lagður í einelti af Helveticu Black (Jolie Vanier) og bróður hennar, Cole (Devon Gearhart), en þegar hann finnur óskastein breytast örlög hans skyndilega. Bræðurnir Loogie, Laser og Lug Short hafa einnig fundið óskastein, en óskirnar sem þeir fá uppfylltar koma þeim í meiri vandræði en þeir hefðu getað ímyndað sér. Þegar eldri systir Toe, hin gáfaða Stacy (Kat Dennings), er að hjálpa vini sínum, „Nose“ Noseworthy (Jake Short), komast þau í kynni við rannsóknarstofu föðurs Nose (William H. Macy) og í framhaldinu fara sögur persónanna að blandast saman með ævintýralegum afleiðingum.... minna

Aðalleikarar

Nú er mælirinn fullur!
Það fer að verða erfiðara og erfiðara fyrir mig að verja Robert Rodriguez. Mig langar til þess, en með hverri barnamynd fer hann versnandi í hæfileikum. Það er ekkert að því að taka upp vídeókameru, flippa svolítið með fjölskyldunni og nota ímyndunaraflið. Það er svolítið annað að spreða milljónum og sóa hæfileikaríku fólki í handrit sem er lítið annað en blanda af barnalegum einkahúmor og sprelli. Shorts er auðvitað gerð handa krökkum, og ég efa ekki að þeim finnist þetta sniðugt og skemmtilegt, en gallinn við það að gera barnamynd sem nær ekkert til eldri áhorfenda er sá að þeir yngstu vaxa á endanum upp úr þessu og vilja síðan ekkert með svona kjaftæði hafa. Bestu fjölskyldumyndirnar eru að mínu mati þær sem maður getur alltaf horft á, alveg sama hvað maður er gamall.

Rodriguez kunni þetta einu sinni, og það þyrfti mikið til þess að láta mig alveg missa þá virðingu sem ég hef fyrir honum. Hann er nú einn fjölhæfasti og "sniðugasti" kvikmyndagerðarmaður sinnar kynslóðar, og hefur hann lengi kunnað að búa til afþreyingarmyndir, bæði ofbeldisfullar og fjölskylduvænar. Fyrstu tvær Spy Kids-myndirnar fannst mér vera mjög skemmtilegar. Svo gerði hann Spy Kids 3-D og Sharkboy & Lavagirl, sem voru nákvæmlega eins í strúktúr og höfðu það sameiginlegt að vera þunnar, sjarmalausar, brellukeyrðar bullmyndir. Ég hef reynt að verja Rodriguez, þrátt fyrir þessar tvær myndir, enda hefur hann eflaust séð þessi verkefni sem tækifæri til að æfa sig í brellum, græða aukapening og vera góður við börnin sín. Núna er ég hættur að nenna að verja þessar barnamyndir. Shorts er líka sú versta til þessa. Gjörsamlega óáhorfanleg mynd.

Það eina góða við hana er frásagnarstíllinn (sem Robert hefur fengið "lánaðan" frá góðvini sínum, Tarantino) og James Spader. Allt annað er óþolandi; krakkarnir eru pirrandi, brellurnar ódýrar og framvindan alveg einstaklega slöpp. Húmorinn er sömuleiðis ótrúlega góður með sig og þessi svokallaði söguþráður sem hér er að finna leysist fljótlega upp og verður að engu. Ég átta mig á því að börn vilja helst hafa plottið sem einfaldast, en þetta er einum of. Mér leið meira eins og ég væri að horfa á nokkrar dæmisögur límdar saman frekar en heila bíómynd. Rodriguez reynir að troða eins mikið af skilaboðum í handritið og hann getur svo krakkarnir læri eitthvað, sem er ekki slæmt nema hvert einasta atriði er eins og kennsluvídeó sem segir krökkum hvernig á að haga sér. Til dæmis er alveg hroðaleg tilraun gerð til þess að kenna krökkum að bora ekki í nefið. Það minnti mig pínulítið á myndina Dogma.

Ástæðan af hverju yngstu krakkarnir munu fíla myndina er sú að hún er algjört rugl, og krakkar einmitt elska rugl. Þeir þekkja heldur ekkert góðan og vondan leik - eða húmor - í sundur. Það er erfitt að harka það af sér að horfa á ungu leikaranna fara með setningar í þessari mynd, en manni líður ennþá verr að þurfa að horfa upp á fullorðna fólkið. Spader er sá eini sem virðist njóta sín á skjánum, sem kemur ekki á óvart því hann hefur leikið undarlega karaktera oft áður. William H. Macy, Jon Cryer, Leslie Mann og Kat Dennings eru aftur á móti öll rosalega vandræðaleg og það sést langar leiðir að áhuginn nær ekki lengra en að vinna einungis fyrir kaupinu.

Ég trúi því ekki enn að Rodriguez hafi skrifað og leikstýrt þessu frati. Ég get heldur ekki trúað öðru en að hann hafi ágætt auga fyrir lélegum myndum. Til dæmis gerði hann Planet Terror, sem tókst frábærlega að vera *viljandi* léleg. Hann hlýtur að hafa gert þessa mynd blindandi eða tapað einhvers konar veðmáli við börnin sín. Einhver sem sérhæfir sig eins mikið í afþreyingargildi og hann gerir ætti að eiga erfitt með að búa til eitthvað sem er svona leiðinlegt og pirrandi til áhorfs.

3/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn