Náðu í appið

Daredevil: Director's Cut 2003

133 MÍN

Aðalleikarar


DD: Director's Cut er allt sem að upprunalega myndin hefði átt að vera. Ég skil ekki hví þessi útgáfa var ekki sett í bíóhúsin? Hún er athyglisverðari útgáfa og meikar meiri sens en upprunalega útgáfan gerði. Og gerir hún Daredevil sögunum loksins góð skil. Snilldar Director's Cut sem allir unnendur Daredevil verða að sjá.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Annar söguþráður. Allt önnur mynd
Þegar ég horfi á Daredevil, þá sé ég ágætis ofurhetjumynd. Reyndar þykir mér það fremur leiðinlegt hversu margir hötuðu hana. Ég get svosem skilið að margir voru ekkert hrifnir af henni af sökum þess að innihaldið er fremur ábótavant og oftast virkar stíllinn mikilvægari heldur en sjálft innihaldið. Hins vegar, þegar ég horfi á leikstjóraútgáfuna (Director's Cut) af Daredevil, þá sé ég hátt í frábæra kvikmynd. Það hljómar kannski svolítið yfirdrifið, en mér finnst það. Ég keypti mér þessa útgáfu fyrir u.þ.b. ári síðan og ákvað að gefa þessu séns. Hvergi bjóst ég við því að áhorf þessarar útgáfu væri bara eins og að horfa á allt aðra kvikmynd, og ef samanburðurinn við bíóútgáfuna er skoðaður, þá má auðveldlega sjá hvernig sú útgáfa þjáðist svo rosalega enda munar um rúman hálftíma.

Bíóútgáfan var vel gerð og stílísk að öllu leyti. Ég var hrifinn af útlitinu sem Mark Steven Johnson hafði skapað. Myndin var voða köld og alvarleg, eiginlega bara hálfpartinn þunglynd. Það vantaði samt örlítið upp á söguþráðinn, aðallega því það voru ekki mikil merki um slíkan. Myndin bara flæddi áfram frá einu efni til þess næsta með harðan hasar á milli og tók síðan enda án þess að skilja mikið eftir sig annað en örlítið skemmtanagildi. Í þessari leikstjóraútgáfu má finna þennan týnda söguþráð. Það kom mér alls ekki á óvart að hann hafi verið ekki aðeins að flestu, heldur ÖLLU, leyti skorinn niður vegna lengdar. Johnson var beðinn um að stytta myndina frá 133 mínútum yfir í 103 mín. Stefnan var aðallega sú að hafa myndina undir tveggja tíma markinu, en til að losa við of miklar flækjur, þá varð öllu plottinu (þ.á.m. fantagóðri morðgátu) slátrað og það sem varð eftir var það sem flestir í dag hafa kallað asskoti leiðinlega mynd.

Söguþráðurinn í þessari útgáfu er, viti menn, ótrúlega nettur. Hann angar af þessum sterka Frank Miller keim sem að flestir þekkja úr myndasögunum. Plottið er jafnframt drungalegt, meira svo heldur en hin útgáfan gaf til kynna, og það segir okkur auðvitað það að leikstjóraútgáfan sé langtum svartari. Uppbygging myndarinnar er einnig töluvert öðruvísi, en í senn heilsteyptari. Við fáum að kynnast Matt Murdock/Daredevil (Ben Affleck - vitaskuld) meira og hversu trufluð tilvera hans er. Samband hans við Elektru er túlkað meira með raunsæri og sorg. Þið munuð kannski eftir þessari tilgangssnauðu ástarsenu sem kom upp úr þurru í bíóútgáfunni, ja, hún er allavega ekki til staðar hér, og það kemur miklu betur út. Illmennin Kingpin og Bullseye fá meiri skjátíma, sem betur fer. Michael Clarke Duncan fær loks að gefa okkur ástæðu til að líta á Kingpin sem einstakling sem allir hræðast, og harkan sem hann beitir er mun harðari en hér áður. Colin Farrell stal sömuleiðis senunni hér áður, og gerir það enn, enda nýtur hann sín gríðarlega (senan á flugvellinum er helvíti góð). Affleck og Jennifer Garner móta allt öðruvísi par en bíóútgáfan sýndi okkur, en það er aðallega vegna þess að sú útgáfa sýndi þau sem elskendur í stað þess að vera einungis skemmdir, einmana einstaklingar sem hafa hvergi tíma fyrir hvort annað eins og þau eru sýnd hér. Jon Faverau á annars enn helstu gullmolana þegar kemur að skemmtilegum one-linerum og Joe Pantoliano er í miklu, miklu stærra hlutverki hér en áður og þykir það ekkert verra.

Tónlistin er þó því miður enn einn veikasti hlekkurinn. Mér finnst hún bara vera leiðinleg og þessi ofnotkun á Evanessence (þeirri EMO hljómsveit) bara passar ekki. Svo er lítið nýtt hægt að segja um búningahönnunina, og ef mér skilst rétt þá voru þessir tveir þættir það helsta sem ég setti út á í bíóútgáfunni.

En til að mynda almenna skoðun á Daredevil: Director's Cut, þá hvet ég hiklaust sem flesta til að kynna sér hana - jafnvel þá sem að fíluðu upprunalegu myndina sama og ekkert. Þetta er sú útgáfa sem að leikstjórinn vildi að við myndum sjá og njóta, en sölumennska og pirringur framleiðenda olli því að brútal klipping þurfti að koma til greina. Í þessari útgáfu er Daredevil með þeim betri Marvel kvikmyndum sem að ég hef séð. Útlitið og andrúmsloftið er dimmt, hasarinn svakalega harður og ljótur og söguþráðurinn jafnvel enn meira svo í eðli sínu. Endirinn verður kannski svolítið teygður, en hann kemur öllum upplýsingum til skila.

Ef ég á að vera stuttorður, þá skora ég á ykkur til að kíkja og sjá nákvæmlega hversu mikill munur getur verið á þvingaðri bíóútgáfu og almennilega þéttri og innihaldríkari leikstjóraútgáfu. Í þessu tilfelli, þá styð ég þessa mynd í botn og hef persónulega afneitað gömlu útgáfunni.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn