Elmo McElroy (Samuel L. Jackson) er efnafræðisnillingur sem vinnur við það að finna stöðugt upp á nýjum eiturlyfjum sem yfirmaður hans, hinn snargeðveiki glæpamaður The Lizard (Meat Loaf) selur síðan. En McElroy er búinn að fá nóg af því að vera eingöngu þræll fyrir bófann og því stingur hann af með formúlu í höfðinu á sér fyrir byltingarkenndu eiturlyfi. The Lizard er að sjálfsögðu ekki ánægður og sendir á eftir honum leigumorðingjann Dawn (Emily Mortimer). McElroy heldur til Liverpool í Skotapilsi og ætlar að semja annaðhvort við Leopold Durant (Ricky Tomlinson) eða Iki (Rhys Ifans), tvo helstu glæpamenn borgarinnar um formúluna. Sá sem bíður betur fær hana. Inn í þetta flækjast síðan hinn seinheppni smákrimmi Felix DeSouza (Robert Carlyle), spillta löggan Virgil Kane (Sean Pertwee) sem vill fá sína sneið af kökunni, snarruglaðir nýnasistar og það sem er verst af öllu, The Lizard sjálfur til Liverpool í hefndarhug.
Það yrði kannski seint sagt að þessi mynd væri neitt merkileg og þetta er engin Guy Ritchie mynd eins og Snatch. eða Lock, Stock and Two Smoking Barrels en asskoti hefur hún mikið skemmtanagildi. Ef maður gleymir bara heilanum á sér heima þá er þessi mynd príðisgóð skemmtun. Bæði tónlist og myndataka (eins og í Fight Club og Snatch.) er vel heppnuð og klippingarnar eru einnig skemmtilegar. Kannski er það bara ég en mér hefur alltaf fundist eitthvað ómótstæðilegt við fullt af hálf-misheppnuðum og kolrugluðum glæpamönnum sem eru allir á höttunum eftir sama hlutnum og eru stöugt að flækjast fyrir hvor öðrum. Enda er þessi mynd borin uppi af skörpum samtölum og leik.
Samuel L. Jackson er að venju svalastur allra og ekkert meira. Robert Carlyle er stórskemmtilegur sem vandræðagemsinn og ákafi Liverpool-aðdáandinn Felix. Hann og Jackson mynd ágætis par. Sean Pertwee sem spillta löggan er fínn (hann minnti mig reyndar svo mikið á Gary Oldman að ég hélt að þetta væri Gary Oldman), hinn ávallt skemmtilegi Rhys Ifans er það áfram og Meat Loaf (sem ég fékk dálítið álit á sem leikara eftir að ég sá Fight Club) er frábær aftur hér sem snargeðveikur glæpamaður.
Eini tilgangur þessarar myndar er að skemmta og ef henni tekst það þá fer ég ekki fram á meira. Henni tekst það í mínu tilviki.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei