Synd að þessi litla perla hafi ekki látið sjá sig í kvikmyndahúsum hér á klakanum. Allavega hikaði ég ekki við að leigja hana seinast þegar ég skrapp á leiguna, og sá ekki eftir því.
Með aðalhlutverkin fara þær Thora Birch (úr American Beauty) og Scarlett Johansson (eftirminnilegust úr Coen-myndinni The Man Who Wasn't There). Þetta eru ekki beint mjög vel þekkt nöfn en ég efa það ekki að þau munu vera það í náinni framtíð. Þessar stúlkur eru óaðfinnanlegar í sínum hlutverkum. Svo lætur Steve Buscemi sjá sig í einu hlutverkinu, og er í einu orði sagt stórkostlegur (og var að sjálfsögðu rændur Óskarsstyttunni sem hann átti skilið).
Það sem var svo frábært við þessa mynd var hversu vel hún nær að halda uppi traustri afþreyingu án þess að láta manni nokkurn tímann leiðast, og gerir það með frábærum og skondnum samtölum, skemmtilegum og litríkum persónum sem keyra söguna. Myndin fjallar í stuttu máli um tvær vinkonur, Enid (Birch) og Rebeccu (Johansson), sem hafa nýlokið við menntaskólanámið, þær vilja ekki fara í framhaldsnám. Þær hafa í staðinn bara ákveðið að leigja sér íbúð og fá sér vinnu. Enid gengur mjög illa í að fá sér vinnu en á meðan leitinni stendur kynnist hún Seymour (Buscemi), feimnum tónlistardýrkanda. Böndin styrkjast á milli þeirra en aftur á móti dragast vinkonurnar frá hvor annari. Málin flækjast svo enn meira eftir að Seymour fær sér loks unnustu.
Birch og Buscemi verða að þungamiðju myndarinnar og er persónusköpun þeirra virkilega vel meðhöndluð. Það var hins vegar Johansson sem var algjörlega skilin útundan (rétt eins og persóna hennar var "dissuð" af bestu vinkonu sinni í myndinni). Ég hefði a.m.k. viljað sjá meira af henni þar sem Rebecca skipti sögunni ekki minna máli en Enid.
En þegar öllu er á botninn hvolft er Ghost World stórgóð lítil mynd sem er þess virði að líta á.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg?
Já Nei