Hinir fjölmörgu aðdáendur bandaríska rokkgoðsins Bruce Springsteen, eða The Boss, eiga von á góðu, því frumsýnd var ný mynd um kappann á kvikmyndahátíðinni í Toronto sem stendur nú sem hæst.
Myndin heitir The Promise: The Making of Darkness on the Edge of Town, en The Darkness of the Edge of Town var fjórða plata Springsteen, og kom út árið 1978.
Springsteen mætti að sjálfsögðu til Toronto til að vera við frumsýninguna, og í tengslum við sýninguna þá settist hann niður með kvikmyndaleikaranum Edward Norton, en þeir kynntust fyrir 11 árum síðan og eru góðir vinir í dag, til að ræða um myndina. Þar kom meðal annars fram að Springsteen telji The Darkness on the Edge of Town hafa verið mikla tímamótaplötu á sínum ferli, og með henni hafi ferillinn tekið markvissa stefnu. Fyrri þrjár plöturnar, þar á meðal hin sígilda metsöluplata Born to Run, hafi verið einskonar undirbúningur fyrir það sem kom á eftir.
Eftir Born to Run hafi hann átt í útistöðum við fyrrum umboðsmann sinn og ekkert getað hljóðritað á meðan. Þegar hann loks komst í hljóðverið á ný með hljómsveit sinni E Street Band, hafi lögin bunast út úr honum, og textar einnig, um þjáningu og efasemdir bandarísku þjóðarinnar á árunum eftir Vietnam stríðið.
Sjálfur átti Springsteen á þessum tíma líka persónulega í vandræðum með að halda í við verkamannarætur sínar í New Jersey, verandi orðinn heimsfrægur og vinsæll.
Myndinni er leikstýrt af Thom Zimny, sem gerði einnig heimildarmyndina um gerð Born to Run.
Í The Promise eru sýnd viðtöl við Springsteen og hljómsveitarmeðlimi, og myndir birtar frá æfingum og upptökum plötunnar Darkness on the Edge of Town m.a.
Myndin verður sýnd þann 7. október á HBO sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum, og verður síðan seld í boxi á DVD með geisladisksútgáfu af Darkness plötunni.
Í kassanum verða einnig tónleikaupptökur á DVD frá Darkness tímabilinu og tveir geisladiskar með lögum sem Springsteen hljóðritaði en notaði ekki á plötunni, en á plötunni voru þekkt lög eins og Badlands, Racing in the Street, The Promised Land og Streets of Fire. Alls komu 70 lög til greina á plötuna, að því er fram kom í spjalli Norton og Springsteen í Toronto.