Sextán ár eru nú liðin síðan Austin Powers in Goldmember, þriðja Austin Powers myndin, var frumsýnd, og aðdáendur ofurspæjarans því orðnir ansi langeygir eftir nýrri mynd. Ekki jukust heldur líkurnar á nýrri mynd nú á dögunum, þegar einn aðalleikaranna úr gömlu myndunum, Mini Me leikarinn Verne Troyer, féll frá.
En nú skyndilega er kviknað ljós í myrkrinu, því aðalleikarinn og höfundur myndanna, grínistinn Mike Myers, 54 ára, lét nokkur orð falla við frumsýningu nýjustu kvikmynd sinnar, Terminal: „Ég veit ekki. En, þú veist, kannski. Það að er mjög líklegt kannski. Sjáum til.“
Og Myers hélt áfram: „Ég er algjörlega til. Ég hef eignast þrjú börn á síðustu sex árum, og það hefur eiginlega tekið allan minn tíma að sinna þeim. En, þú veist, ég elska að leika allar þessar persónur, og þegar við erum á tökustað er þetta stanslaust partý og fjör. Mjög gaman.“
Hann sagði einnig við Entertainment Tonight tímaritið: „Ég væri mikið til í að gera kvikmynd út frá sjónarhóli Dr. Evil.“
Ekki er langt síðan Myers brá sér síðast í hlutverk Dr. Evil úr Austin Powers myndunum, en það var í atriði í spjallþáttunum The Tonight Show. Þar sagði hann í samtali við þáttastjórnandann Jimmy Fallon, að hann hefði verið rekinn úr ríkisstjórn Donald Trump. Hann var einnig grautfúll yfir því að honum hefði verið ýtt til hliðar af Steve Bannon, sem fékk Illsku-ráðuneytið, en ekki hann sjálfur.