Murphy í Netflix uppistandi?

Hinir fjölmörgu aðdáendur gamanleikarans Eddie Murphy ættu nú að sperra eyrun, því mögulega er leikarinn ástsæli á leið aftur upp á svið með nýtt uppistand.

Murphy, sem var vinsælasti uppistandarinn í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar, á nú í viðræðum við Netflix streymisrisann, um að gera röð uppistandsþátta. Frá þessu greinir fréttamiðilinn TMZ, og vísa til heimildarmanna sem þekkja Murphy.

Sagt er í sömu frétt að það verði engir smáaurar í boði til að lokka Murphy aftur á sviðið, heldur hvorki meira né minna en 70 milljónir Bandaríkjadala, sem er jafnvirði tæpra níu milljarða íslenskra króna.

TMZ segist ekki geta staðfest töluna nákvæmlega á þessu stigi, en sagt er að þessi upphæð sé það sem maður af hans kaliberi á að geta krafist frá Netflix, að því er dagblaðið bandaríska The New York Post greinir frá.

https://youtu.be/rZu7bYiXryg

Annar frábær grínisti, Dave Chappelle, fékk greiddar litlar 20 milljónir dala fyrir hvert af sínum verðlaunauppistöndum, og Chris Rock nældi sér í 40 milljónir dala fyrir sína þætti. Amy Schumer fékk, samkvæmt blaðinu, 11 milljónir dala fyrir síðasta Netflix þátt sinn.

Murpy á glæsilegan feril í uppistandi, rétt eins og í kvikmyndum, eins og fyrr var greint frá. Margir muna eftir uppistandsmyndinni Delirious frá 1983, og Raw frá árinu 1987, en sú uppistandsmynd rakaði saman 50,5 milljónum dala, en kostaði einungis átta milljónir dala í framleiðslu. Það þýðir að Raw uppistandið er það ábatasamasta í sögunni.

Murphy gaf til kynna í Netflix þætti Jerry Seinfeld á dögunum, Comedians in Cars Getting Coffe, að hann myndi mögulega stíga á svið á ný. „Þú veist, að það að þú sért hættur í uppistandi, er alveg að fara með fólk – þú veist það, er það ekki?“ spurði Seinfeld Murphy í þættinum.

Murphy svaraði og sagði: „Ég mun gera þetta aftur. Það er bara, þú veist, það þarf allt að smella.“

https://youtu.be/XhHgYnAZGpI