Bandaríski leikarinn Michael Douglas segir í samtali við breska blaðið The Guardian, að munngælur séu orsökin fyrir því að hann hafi fengið krabbamein í hálsinn.
The Guardian spurði leikarann hvort að hann teldi að hægt væri að rekja krabbamein sem leikarinn fékk í hálsinn, til drykkju og reykinga í gegnum árin, sem er algeng ástæða svona krabbameins, en Douglas sagði svo ekki vera.
„Nei. Án þess að fara út í smáatriði, þá er orsök þessa ákveðna krabbameins HPV [Human papillomavirus] sem kemur til útaf munngælum,“ sagði Douglas.
„[….] já, þetta er sjúkdómur sem smitast í gegnum kynlíf. Og ef þú ert með hann, þá eru munngælurnar líka besta lækningin,“ bætti Douglas við.
Douglas var greindur með fjórða stigs munnholskrabbamein árið 2010 og fór þá í geisla- og lyfjameðferð. Hann hefur síðan þá tilkynnt að hann sé búinn að ná fullum bata. Hann sagði blaðinu að það séu 95% líkur á að sjúkdómurinn taki sig ekki aftur upp.“
Blaðamannafulltrúi leikarans hefur nú eftir að viðtalið birtist dregið í land með ummæli Douglas. Í samtali við E! News sagði fulltrúinn: „Hann sagði ekki að þetta væri orsök krabbans. Í samtali um ástæður munnholskrabbameins, þá sagði hann að þetta væri ein af orsökum sem kæmu til greina. Hann ræddi þetta aldrei út frá sér persónulega.“
Douglas er nú að kynna sjónvarpsmynd sína Behind the Candelbra, sem leikstýrt er af Steven Soderbergh, þar sem hann leikur tónlistarmanninn litríka Liberace. Myndin hlaut góðar viðtökur þegar hún var frumsýnd.