Hollywood ákveður frumsýningardaga mynda gjarnan þónokkuð langt fram í tímann, en þó eiga þeir til að breytast þegar dregur nær frumsýningu.
Tvær myndir hafa nú fengið frumsýningardag fram í tímann, önnur var ekki með frumsýningardag fyrir, The Mummy, en hin, Warcraft, hefur verið flutt á milli ára.
Endurræsing Mummy verður þannig frumsýnd 22. apríl 2016 og Warcraft, sem gerð er eftir metsölutölvuleiknum World of Warcraft, verður frumsýnd 11. mars, en áður var áformað að frumsýna hana rétt fyrir jól 2015, eða 18. desember. Hvort sem það er vegna þess að Star Wars: Episode VII verður frumsýnd þennan dag, eða hvort önnur ástæða liggur að baki þessu, skal ósagt látið.
Endurræsing The Mummy er sögð eiga að vera meira í ætt við hrollvekju heldur en Indiana Jones ævintýramynd eins og frumgerðin.
Að lokum má geta þess að ævintýramyndin Seventh Son með Jeff Bridges og Julianne Moore í aðalhlutverkum, hefur einnig verið færð til í dagskránni um heilt ár, en myndin átti upphaflega að koma í bíó 17. janúar nk. Í staðinn verður hún frumsýnd 6. febrúar 2015.