Monty Python grúppan safnast saman


Þeir eftirlifandi meðlimir hinnar goðsagnakenndu grín grúppu Monty Python tilkynntu á dögunum að þeir munu safnast aftur saman fyrir kvikmyndina Absolutely Anything. Myndin er byggð á handriti eftir Terry Jones og handritshöfundinn Gavin Scott og hafa þeir unnið að því í yfir tvo áratugi, en Jones mun einnig leikstýra.
Myndin verður samblanda af leiknum og tölvugerðum atriðum og fjallar um hóp geimvera sem gefa manni einum hæfileikann til að gera bókstaflega hvað sem er og hverjar afleiðingarnar út frá því verða. John Cleese, Michael Palin og Terry Gilliam eru allir bókaðir í verkefnið og stendur framleiðandi myndarinnar nú í því að fá Eric Idle til að ganga til liðs við hana. Þeir munu tala fyrir ýmsa karaktera, en ásamt þeim mun Robin Williams ljá rödd sína fyrir talandi hund að nafni Dennis.

Pythonarnir eru einnig að vinna að myndinni A Liar’s Autobiography sem er byggð á ævisögu hins látna Graham Chapman og verður tölvugerð í þrívídd. Hver kafli myndarinnar verður gerður af mismunandi fyrirtæki og mun endast í 3 til 12 mínútur, einnig verður hver kafli í mismunandi teiknistíl. Eins og í tilfelli Absolutely Anything er Eric Idle eini Python meðlimurinn sem er ekki staðfestur við verkefnið, en viðræður standa yfir um að fá hann í það.

A Liar’s Autobiography mun að sögn koma snemma á þessu ári, þrátt fyrir að lítið sem ekkert hefur heyrst um hana nýlega, en enginn útgáfudagur er kominn á Absolutely Anything; tökur munu hins vegar hefjast nú í sumar í Bretlandi.