Framleiðslufyrirtækið Flying Bus, sem samanstendur af ungum kvikmyndagerðarmönnum, þeim Arnóri E. Kristjánssyni, Heimi S. Sveinssyni, Matthías Haukstein Ólafsson og Knúti H. Ólafsyni, er iðið við kolann og hefur nú sent frá sér stuttmyndina L’ascesa di Lorenzo eða The Rise of Lorenzo, eins og hún heitir á ensku.
Áður hefur fyrirtækið sent frá sér aðrar kvikmyndatengdar skopstælingar, eins og Spænskir Sandar, sem var vestra skopstæling á spænsku, Drakúla, sem var íslensk skopstæling af kvikmyndinni Dracula frá 1931, og Ítalskt Kaffi sem var mafíu paródía á ítölsku. The Rise of Lorenzo er einmitt prequel, eða forsaga, fyrir Ítalskt Kaffi.
Myndir Flying bus hafa allar verið birtar hér á kvikmyndir.is
Kíktu á myndina hér fyrir neðan:
Samkvæmt upplýsingum frá Flying bus, þá er The Rise of Lorenzo grínmynd sem, eins og fyrri myndin „Ítalskt Kaffi“, dregur að mestu áhrif sín frá verkum Francis Ford Coppola og Martin Scorsese og er einungis á ítölsku.
Myndin fjallar um misheppnaða mafíósann Lorenzo og hvernig hann ætlar sér að hrifsa völdin af Don Vito og Don Altobello.