Michael Ansara, leikarinn sem lék Klingon foringjann Kang í Star Trek sjónvarpsþáttunum, er látinn 91 árs að aldri. Hann lést á heimili sínu í Calabasas í Kaliforníu í Bandaríkjunum á miðvikudaginn 31. júli, eftir langvarandi veikindi, samkvæmt frétt The Hollywood Reporter.
Ansara fæddist í Sýrlandi og kom til Bandaríkjanna með foreldrum sínum þegar hann var aðeins tveggja ára gamall. Hann er þekktur sem einn af aðeins sjö Star Trek leikurum sem léku sömu persónuna í þremur mismunandi Star Trek seríum. Síðast kom hann fram í hlutverki Kang árið 1996.
Ansara lék einnig í kvikmyndum, þar á meðal Julius Caesar frá árinu 1953 og Voyage to the Bottom of the Sea frá árinu 1961.
Ansara var heiðraður fyrir leik sinn með stjörnu í hinni þekktu gangstétt Hollywood Walk of Fame.
Ansara var kvæntur leikkonunni Barbara Eden, sem lék í I Dream of Jeannie, frá árinu 1958 – 1974. Þau áttu soninn Matthew Michael Ansara sem lést af of stórum skammti af heróíni þegar hann var 35 ára gamall.
Ansara skilur eftir sig eiginkonu sína til 36 ára, Beverly, systur sína Rose, frænkuna Michelle og frænda Michael John.