Ef Tarsem Singh væri ekki með svona fáránlega gott auga, þá myndi ég kalla þessa mynd Mirror Mygla, því þetta er ábyggilega flottasta „ekkert“ sem ég hef séð síðan Alice in Wonderland. Munurinn þar var samt sá að Alice reyndi að vera með söguþráð og framvindu þótt það hafi alls ekki heppnast nógu vel. Þessi mynd er að vísu örlítið betri vegna þess að hún er augljóslega vönduð á ýmsum sviðum og þar að auki fá sumir leikarar að njóta sín betur en maður hefði haldið. Myndin á samt lítið erindi til hópa sem eru ekki í kringum 10 ára aldur eða með súrrealískt vit á tísku.
Julia Roberts er ein af hæst launuðustu stórstjörnum sem ég veit um sem þykist vera miklu fjölbreyttari en hún er, og kaldhæðnislega get ég einmitt sagt það sama um Kristen Stewart (sem leikur í hinni Mjallhvítarmynd ársins 2012, Snow White & The Huntsman). Ég ætla ekki að segja að Roberts hafi ekki staðið sig vel á ferlinum en þau skipti þar sem ég sé alvöru leikkonu í henni eru ofsalega fá. Hún er kannski (rétt svo) myndarleg kona en ekki alveg það sem ég myndi kalla falleg, og langt frá því að vera „fegurst á öllu landinu“ (sem, enn og aftur, gildir líka um áðurnefndu Twilight-leikkonuna – hvað er málið með þessa cast-lista??). Hún fer oft í mínar fínustu, sérstaklega þegar hún pínir úr sér eitthvað sem hún virðist bara ekki hafa, eins og t.d. húmor. Það er eitt að vera fyndinn þegar handritið gefur manni fyndnar línur, en því miður þarf Roberts að ganga lengra í Mirror Mirror og sýna okkur að hún sé með húmor þegar hún ofleikur, og þá í mynd sem er allt annað en vel skrifuð. Það er oft ekki mjög auðvelt að sitja í gegnum þetta.
Roberts heldur að hún sé fyndin, en það er líka vegna þess að Tarsem heldur að myndin sé endalaust hlægileg. Reynir hann eins og hann getur að þrepa sig niður á barnalegt stig svo krakkarnir hlæji, en skiptir svo alfarið um tón á milli sena og treður inn fullorðinsbröndurum svo foreldrunum leiðist ekki. Blandan er þess vegna svo skrítin að hún verður meira fráhrindandi heldur en skemmtileg. Það fer sjaldan vel saman að hafa bæði lúðalegt slapstick-grín og tilvísanir í greddu. Stundum tekst að finna þennan þægilega milliveg og þá verða sumar senur ótrúlega fyndnar á mjög kjánalegan hátt, en það er svosem allt í lagi vegna þess að tónninn ætlar sér að vera mjög barnalegur allan tímann.
Mér líður eins og það sé pólitískt rangt að hlæja að dvergum þegar þeir eru stanslaust að reyna að vera fyndnir, en aftur á móti líður mér verr þegar þeir verða svo ófyndnir og pirrandi að mann langar frekar að hlaupa til þeirra og kynna sér reglurnar í dvergakasti. Af einhverjum ástæðum tekst samt dvergunum sjö að vera með því skásta sem myndin hefur upp á að bjóða, sem er frekar súrt, og þegar maður venst húmornum þeirra verður hann alls ekki svo slæmur. Bjargvættur myndarinnar er samt enginn annar en andlit Winklevoss-tvíburanna (sem hefur eitt svalasta nafn í heimi), Armie Hammer. Greinilega er þessi maður með það sem kallast náttúrulegt talent í kómíkinni vegna þess að hann stelur senunni í nánast hverju einasta atriði sem hann á. Eitthvað er hann svo hress, viðkunnanlegur og áhugasamur án þess að rembast nokkurn tímann eins og Roberts. Allt það sem James Marsdengerði fyrir Enchanted, það gerir Hammer fyrir Mirror Mirror, og myndin verður leiðinlegri í hvert sinn sem hann sést ekki.
Ég veit ekki alveg hvað ég að segja um Mallhvíti sjálfa, hana Lily (dóttir Phil) Collins. Hún er sem betur fer ekki jafnslæm hér og hún var í Priest og Abduction, en annað en að vera falleg stelpa – sem þarf virkilega á plokkara að halda – skortir henni sjarmann sem hlutverkið þykist hafa. Sagan reynir líka að byggja upp hjartnæmt vinasamband á milli hennar og dverganna en það kemst ómögulega til skila. Maður sér það, en finnur aldrei fyrir því. Myndina í heild sinni skortir alla hlýju og umhyggju, eins og leikstjórinn hafi bara hreinlega gleymt slíkum hráefnum. Það kæmi allavega ekki á óvart, því það eina sem Tarsem pælir almennilega í er búningablætið.
Abstrakt og litríkir búningar eru eins og eiturlyfið hans Tarsem. Hann byggir heila bíómynd í kringum þá án þess að nota þá sem skraut til að segja stærri sögu. Þetta segi ég vegna þess að ég fann voða litla sögu í Mirror Mirror. Það sem ég tók aðallega eftir voru misfyndnar senur þar sem leikarar reyndu stöðugt að segja brandara inni í miðri barnamynd. Næstum því eins og að horfa á 100 mínútna blooper-reel með flottum skotum, vandaðri umgjörð og aðeins örfá merki um alvöru frásögn. Mest drullar myndin samt upp á bak í seinustu köflunum, með kjánalegum hasar, bitlausum endi og örugglega mest ógrípandi söngatriði sem ég hef séð spilast yfir kreditlista síðan Insane in the Membrane kom í lokin á Furry Vengeance.
Þó svo að Tarsem hafi ætlað sér að gera þessa mynd fyrir krakka þýðir ekki að það sé ásættanlegt fyrir hann að sýna vinnunni sinni svona barnalega lítinn áhuga. Kannski hefur hann verið fullupptekinn við það að sniffa búninganna í stað þess að vera sjónræni listamaðurinn sem hann var t.d. þegar hann gerði The Fall. Á ég í alvörunni að trúa því að þetta sé sami maðurinn?
Reyndar jú, ég gæti alveg trúað því. The Fall, eins og allar aðrar Tarsem-myndir, sýndi frásögn voða lítinn áhuga en að minnsta kosti var hún algjör fullnæging fyrir augað. Kannski er hann bara að verða latari með árunum. Annars er myndin langt frá því að vera viðbjóður. Hún er kannski viðbjóður í stökum tilfellum en ég hló að henni líka, og það er rosalega erfitt að hafa ekki hærra álit á Armie Hammer þegar hún er búin.
(5/10)