(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)
Umsagnir í garð Frosts hafa ekki vakið mikla lukku og aðsóknartölurnar eru klárlega í slakari kanntinum (enda snælduvitlaust að gefa myndina út um sömu helgi og Kringlan heldur upp á eigið afmæli, svo ekki sé talað um landsleikinn), en þó eru ekki allir jafnharðir gagnvart myndinni og þar með er myndin frábær efniviður í nýjasta ‘Með/á móti’.
Axel Birgir Gústavsson vs. Tómas Valgeirsson
Axel, einnig kallaður jákvæði gaurinn af mótherjanum að þessu sinni, kann hugsanlega að vera eini stuðningsmaður Frosts á landinu sem tengist ekki framleiðslu eða útgáfu myndarinnar. En til móts er það Tommi Valgeirs, sem skrifaði umfjöllun um myndina fyrir nokkrum dögum. En hann hefur nú séð báðar kvikmyndir Lyngdals og fékk litla sem enga skemmtun úr þeim báðum.
Ekki gleyma að okkur langar innilega að heyra hvað þið, kæru lesendur, hafið að segja um Frost þar sem orð um myndina hafa reynst mjög einróma ef dæma má spjallið á götunni.
Axel segir:
Frost er gölluð kvikmynd. Hún byggir upp heilmikið en er mjög þurr kvikmynd fyrir utan fantagóða leik þeirra Björn Thors og Önnu Gunndísar og drungann sem liggur yfir mest allri myndinni. Hún sýnir ákaflega lítið og leysir ekki ráðgátur sínar að neinu leyti, en það er hluti af því sem ég kunni að meta við myndina. Frost sýnir ósköp lítið en það litla sem hún sýnir virkir ímyndunaraflið og kemur af stað hugarflæði hjá áhorfandanum sem fyllir betur inn í eyðurnar en myndin hefði sjálf getað gert. Það sem þú ert hrædd/ur við er það sem hryllingurinn í myndinni nærist á og þar með gæti skemmtun þín einungis farið eina leið á tvískiptum veg:
Annaðhvort kaupir þú drungann frá upphafi og lætur ráðgátuna sjá um að vekja upp spurningar um ókindina, eða að þú kaupir hana einungis fyrir það sem er á yfirborðinu og dettur þar með ekki inn í persónubundna hrollinn sem hugmyndinni fylgir.
Eitt drepur þó skemmtunina svakalega og dregur gjörsamlega úr öllum drunga þar til þungnístandi kreditlistinn í lokin poppar upp, þá á ég við hinn óttarlega slaka og tilgangslausa endir á ‘sögunni’. Hefði Frost haldið sig við ‘found footage’ notkunina hefði ég gengið út miklu sáttari þó hún hefði jafnvel haldið sig við að svara engu, en best hefði þó verið að fara alla leið með þennan sérkennilega og spennandi útúrsnúning í lokin. Þess í stað virkar endirinn kjánalegur og ég get auðveldlega séð hvernig hann er virkar eins og meira frústerandi salt í sárið fyrir þá sem ekki njóta sín frá upphafi yfir myndinni.
Með því að svara engu tekst myndinni að skila drunga sínum og yfirgnæfandi vonleysi að hálfu áhorfandans og persónanna mjög vel. Það hjálpar einnig helling hversu vel unnin myndin er. Það sem þú færð ekki að vita er að mínu mati oft drungalegra en þegar það er útskýrt. Kosmísk illska er aldrei ógnvekjandi ef hún er útskýrð.
Tommi segir:
Frost er eitt stærsta „ekkert“ sem hefur verið fest á filmu/stafrænar vélar á þessu litla landi, og þar er bara helvíti mikið sagt. Það er ótrúlegt að aðstandendur hafi þurft að ferðast alla leið upp á jökla í viðbjóðslegum stormi til að geta betur skreytt þetta „ekkert“ og vonast síðan til þess að fólk tæki þetta í sátt bara vegna þess að metnaður var fyrir hendi í útlitinu. Ef sambærilegur metnaður hefði farið í innihaldið hefði ég miklu frekar þegið það að fá shaky-cam hausverk yfir senum sem voru teknar upp fyrir framan grænt tjald. Skreyttur skítur verður aldrei neitt annað en fyrst og fremst skítur. Nema hér er hann frosinn líka.
HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?